« Áríðandi tilkynning frá Óttarri Proppé
Jómfrúarræða Nichole Leigh Mosty »

Jómfrúarræða Theodóru S. Þorsteinsdóttur

Birt þann 08.12.16

Fyrstu umræður á Alþingi eftir kosningar 29. október 2016  fóru fram í gær, 7.desember. Eins og tíðkast var það fjárlagafrumvarp sem lagt var fram. Theodóra S. Þorsteinsdóttir og Björt Ólafsdóttir tóku til máls fyrir hönd Bjartrar framtíðar.

Theodóra hóf jómfrúarræðu sína á að benda á þau tækifæri sem felast í því að aldrei hafa fleiri nýjir þingmenn tekið sæti á þingi.

„Við þessar óvenjulegu aðstæður, þegar fjárlög eru lögð fram í þinginu án þess að búið sé að mynda ríkisstjórn eftir kosningar, reynir á samstöðu og sanngirni í allri umræðu. Ég bind vonir við að hún verði leiðarvísir fyrir komandi þing. Með jafnstórum hópi nýrra þingmanna er tækifæri – stórt tækifæri til breytinga. Með heiðarlegu verklagi sem endurspeglar þann skilning að allir kjörnir þingmenn beri ábyrgð þrátt fyrir ólíkar pólitískar áherslur. Við stöndum frammi fyrir stórum og mikilvægum verkefnum sem brýnt er að ganga í strax. Margir grunninnviða hafa verið sveltir og innviðir þeirra hafa grotnað niður frá hruni. Forsvarsmenn margra stofnana sem tilheyra stoðum samfélagsins sjá fyrir sér áframhaldandi niðurskurð á þjónustu.“ 

Einnig benti Theodóra á að ágæt staða ríkissjóðs og aukinn hagvæöxtur endurspegli ekki endilega heimilisbókhald venjulegs fólks. 

„Verkefnin sem blasa við okkur eru stór og brýn og ljóst að við þurfum að forgangsraða en ég minni á að ágæt staða ríkissjóðs og aukinn hagvöxtur endurspeglar ekki endilega heimilisbókhald venjulegs fólks. Þar þarf að leita jafnvægis eins og á öðrum sviðum. Við í Bjartri framtíð erum tilbúin til þess, búin að bretta upp ermar og óskum eftir góðu samstarfi um stóru málin.“  sagði Theodóra. 

Hér fyrir neðan má lesa og horfa á ræðu Theódóru.

 

Virðulegi forseti.

Við þessar óvenjulegu aðstæður, þegar fjárlög eru lögð fram í þinginu án þess að búið sé að mynda ríkisstjórn eftir kosningar, reynir á samstöðu og sanngirni í allri umræðu. Ég bind vonir við að hún verði leiðarvísir fyrir komandi þing. Með jafnstórum hópi nýrra þingmanna er tækifæri – stórt tækifæri til breytinga. Með heiðarlegu verklagi sem endurspeglar þann skilning að allir kjörnir þingmenn beri ábyrgð þrátt fyrir ólíkar pólitískar áherslur. Við stöndum frammi fyrir stórum og mikilvægum verkefnum sem brýnt er að ganga í strax. Margir grunninnviða hafa verið sveltir og innviðir þeirra hafa grotnað niður frá hruni. Forsvarsmenn margra stofnana sem tilheyra stoðum samfélagsins sjá fyrir sér áframhaldandi niðurskurð á þjónustu.

Björt framtíð talaði fyrir kerfisbreytingum í aðdraganda kosninga. Að á Íslandi væru fjölmörg kerfi ómannúðleg, ósanngjörn og þjónuðu ýmist kerfinu sjálfu í heild sinni eða sjálfum sér. Ekki þeim sem þau ættu að vera að þjóna. Nú er hér lagt fram fjárlagafrumvarp af hálfu þeirra flokka sem setið hafa við völd undanfarin rúm þrjú ár. Í þeim er ekki mikið svigrúm til kerfisbreytinga en við þingmenn Bjartrar framtíðar munum halda áfram að vinna að þeim eins og lofað var. Ljóst er að horfa þarf heildstætt á hlutina og að ekki verður hægt að gera allt í einu.

Með lögum nr. 123 frá 2015, um opinber fjármál, voru sett ákvæði um stefnumörkun í opinberum fjármálum til fimm ára. Þar á meðal eru ákvæði um að fjármála- og efnahagsráðherra skuli leggja fram tvær þingsályktunartillögur á því sviði. Önnur þeirra er  fjármálastefna. Tilgangur hennar er að stuðla að efnahagslegu jafnvægi til lengri tíma litið og auka þar með stöðugleika í efnahag fyrirtækja, heimila og opinberra aðila og þannig að treysta skilyrði fyrir hagkvæmri nýtingu mannafla, fjármagns og auðlinda.

Þegar fjallað er um frumvarp til fjárlaga 2017 er ekki hægt að komast hjá því að lesa samhliða fjármálastefnu fyrir árin 2017 -2021. Stefnan felur einnig í sér það nýmæli að stefnumörkun í opinberum fjármálum nái ekki eingöngu til starfsemi ríkisins heldur einnig til starfsemi annarra opinberra aðila, þ.e. til starfsemi sveitarfélaga og fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga. Með þessu móti verður betur kleift að meta efnahagsáhrif af starfsemi allra þessara opinberu aðila á þjóðarbúskapinn og að beita opinberum fjármálum til hagstjórnar. Við hljótum að fagna þessari breytingu og því að nú séu settar stefnumarkandi áætlanir með langtímasýn og markmið.

Þessar breytingar eru að mínu mati veruleg framför til batnaðar og gera okkur kleift að viðhalda stöðugleika. Hér hefur ríkt of mikill glundroði við efnahagsstjórn þegar horft er til lengri tíma. Ný stefnumótun hefur verið búin til á árs fresti og án samhengis við aðra stóra þætti efnhagslífsins. Oft hefur af því skapast þensla sem hægt hefði verið að komast hjá. Þensla sem hefur kostað okkur of mikið þar sem margir stórir aðilar fara af stað á sama tíma og keppast við að ljúka framkvæmdum. Nú er komið að því að horfa á efnahagsmál í stærra samhengi þar sem ríkið og sveitarfélög ganga í takt.

Í útgjaldahlið frumvarpsins má finna margt jákvætt sem við í Bjartri framtíð getum vel tekið undir. Annað verður að segja að sé undir okkar væntingum. Vissulega er gert ráð fyrir aukningu á fjárframlögum til ýmissa brýnna mála eins og heilbrigðis-, mennta- og löggæslumála en margt bendir til þess að enn vanti upp á að fjármögnun sé nægjanleg í þessum málaflokkum.

Landspítalinn fær t.d. 59,3 milljarða á fjárlögum ársins 2017. Það er fjórum milljörðum meira en árið 2016 sem  Spítalann vantar hins vegar tólf, að mati stjórnenda hans til að geta sinnt nauðsynlegri þjónustu.

Þá verður ekki hægt að standa við samgönguáætlun þar sem fimmtán milljarðar standa á milli hennar og fjárlagafrumvarpsins.

Ef ég gríp hèr inn í menntamàlin sem er sér kapítuli út af fyrir sig.  Háskóli Íslands metur stöðuna þannig að 5 mia hafi vantað upp á að ná meðaltali OECD ríkja á síðasta ári og skólinn skilar u.þ.b. 300 milljón króna halla. Ef við ætluðum að halda í við Norðurlöndin vantaði 15 mia upp á það. Háskólinn hefur átt góðu gengi að fagna við öflun sértekna með þátttöku í ýmsum verkefnum þar sem þær hafa skilað þriðjungi af fjármögnun skólans í heild sinni. Sú aukning sem boðuð er í fjárlagafrumvarpinu 2017, til Háskóla Ísland endurspeglar ekki það fjármagn sem stjórnendur skólans telja að þurfi til og blasir við að ráðast þurfi í talverðan niðurskurð á kennsluframboði. Við höfum dregist aftur úr við þróun kennsluhátta, nýsköpun o.fl. og ef ekkert verður að gert horfum við til þess að ungt fólk mun í auknum mæli sækja sína menntun til útlanda.

Aðeins yfir í tekjuhliðina.

Það má nefna eitt og annað:
Gert er ráð fyrir að sækja auknar tekjur í ríkissjóð, samtals 1,7 milljarða með hækkun á álögum á áfengi og tóbak auk eldsneytis. Þá er einnig gert ráð fyrir þreföldun á gistináttagjaldi, úr 100 kr. í 300 sem ætlað er að skila tekjum upp á 300 milljónir í ár. Sem er auðvitað dropi í hafið miðað við þá uppbyggingu sem þarf að fara í innan ferðaþjónustunnar.

Það verður svo að segjast að innan Bjartrar framtíðar vonuðumst við til að unnt yrði að sækja meiri tekjur t.d. með hækkun á veiðigjaldi. Það hefur dregist verulega saman og við viljum leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að breyta því.

Heildarniðurstaðan er svo sú að gert er ráð fyrir að skila 28,5 milljarða tekjuafgangi á árinu.

Þegar allt kemur svo til alls þarf að finna jafnvægi í efnahagsmálum þjóðarinnar. Mikil þensla kemur niður á heimilisbókhaldinu og buddum okkar allra. Það er því ánægjuefni að nú skuli loksins vera komið á stefnumótun og markmiðssetningu sem nær til opinberra aðila í heild sinni. Þannig getur hið opinbera í heild sinni gengið í takt til að skapa efnahagslegan stöðugleika.

Enn vantar þó lausnir á ýmsum sviðum. Mig langar að nefna hér sérstaklega húsnæðisvanda ungs fólks sem hefur enga möguleika á að eignast eigið húsnæði og í raun ekki leigja heldur. Það er auðvitað ekki beint viðfangsefni fjárlagafrumvarpsins en segir okkur að þrátt fyrir að hagvöxtur hafi verið hér ágætur og við höfum aflað mikilla tekna með mikilli aukningu ferðamanna þá er hér ekki allt í lukkunnar velstandi.

Ég get ekki komist hjà því að nefna sveitarfélag í þessari fyrstu ræðu minni hér á Alþingi. Í Kópavogi, þar sem ég hef fengið að taka þátt í uppbyggingu undanfarin ár, hefur sveitarfélagið ákveðið að bjóða þeim fjölskyldum sem komnar eru yfir tekjuviðmið til að geta búið áfram í félagslegu húsnæði, upp á lán til að brúa bilið til að geta keypt þær íbúðir sem þær hafa búið í. Þannig hefur orðið til nýr valkostur sem gerir fólki kleift að brúa bilið á milli þess að njóta félagslegrar aðstoðar til að eignast sitt eigið húsnæði með minni tilkostnaði og mýkri leið en að segja því upp og henda því út á götuna. Börnum er með þessu úrræði tryggð skólavist í sínum skóla áfram þó efnahagur fjölskyldunnar hafi vænkast og þau eru ekki slitin út úr sínu umhverfi. Þetta gæti leitt okkur að umræðu um tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga sem ég ætla þó að hinkra með og taka á öðrum vettvangi.

Virðulegi forseti.

Þetta fjárlagafrumvarp mun ekki setja þjóðina á hausinn, við getum verið þakklát fyrir það.

Verkefnin sem blasa við okkur eru stór og brýn og ljóst að við þurfum að forgangsraða en ég minni á að ágæt staða ríkissjóðs og aukinn hagvöxtur endurspeglar ekki endilega heimilisbókhald venjulegs fólks. Þar þarf að leita jafnvægis eins og á öðrum sviðum. Við í Bjartri framtíð erum tilbúin til þess, búin að bretta upp ermar og óskum eftir góðu samstarfi um stóru málin.

Fylgstu með!

Skráðu þig á póstlistann og fáðu vikulegt fréttabréf sent.