« Jómfrúarræða Nichole Leigh Mosty
Ríkisstjórnarsáttmálinn »

Framtíðin er óskrifað blað

Birt þann 02.01.17

Blaðagrein Óttarrs Proppé sem birtist í Morgunblaðinu 31. desember 2016

 

Í lok árs er til siðs að horfa til baka yfir árið sem er að líða. Hvað stóð upp úr? Hvaða fyrirheit sjáum við fyrir framtíðina? Höfum við gengið til góðs? Þegar maður horfir yfir árið 2016 er ekki annað hægt að segja en að þetta var viðburðarríkt ár. Sérstaklega á sviði stjórnmála bæði hér heima og úti í heimi. Þetta var ár hins óvænta bæði í neikvæðum og jákvæðum skilningi.

“Þetta fór ekki alveg eins og við reiknuðum með” er sagt að hafi verið það fyrsta sem þáverandi forsætisráðherra Breta, David Cameron, hafi sagt við ráðgjafa sína morguninn eftir að þjóðin kaus að ganga úr Evrópusambandinu í Brexit atkvæðagreiðslunni. Skömmu síðar var forsætisráðherrann búinn að segja af sér og þau sem tóku við keflinu virðast enn í mesta basli með að átta sig á því hvernig hægt sé að vinna úr þessari stöðu sem enginn hafði ímyndað sér að gæti komið upp. Ja, nema kannski þeir sem mættu á kjörstað og mynduðu þennan óvænta meirihluta um Brexit. Orð fyrrverandi forsætisráðherra Breta gætu að svo mörgu leyti verið einkunnarorð ársins 2016 sem senn er á enda. Það sem stendur helst upp úr eru óvæntar fréttir, ólíkindalegar vendingar, óhugsandi úrslit kosninga.

Það bjóst enginn við því að Donald Trump yrði kosinn næsti forseti Bandaríkjanna. Enginn leyfði sér að trúa því að stríðið í Sýrlandi myndi geysa af enn meiri hörku í árslok án þess að teikn væru á lofti um frið. Hvern hefði grunað að lið Íslands myndi slá Englendinga út í Evrópumeistarakeppninni í fótbolta? Hefði nokkur maður séð það fyrir í upphafi árs að háskólaprófessorinn Guðni Th. Jóhannesson yrði kosinn forseti Íslands árið 2016 og hvað þá að sá hinn sami forseti stæði skömmu síðar frammi fyrir mögulegri stjórnarkreppu eftir kosningar sem hafði verið flýtt í kjölfar hneykslismáls og afsögn forsætisráðherra landsins.

En af hverju reiknum við með því að heimurinn breytist ekki? Eða að breytingar geti bara orðið í takt við það sem þykir fyrirframgefið líklegt? Staðreyndin er sú að við lifum eitthvað mesta breytingaskeið mannkynnssögunnar þessa áratugina. Það er ekki bara tækninni sem fleygir fram. Með byltingu í samskiptum og dreifingu upplýsinga breytast hugmyndir líka hratt og dreifast um heimsbyggðina á áður óþekktum hraða. Svona miklum breytingum fylgja skiljanlega vaxtaverkir. Það er erfiðara en áður að átta sig á sannleiksgildi og uppruna upplýsinga og frétta. Aukinn hraði og meira aðgengi að upplýsingum breytir því líka hvernig við tökum ákvarðanir og myndum okkur skoðanir. Þessum nýja veruleika fylgir ábyrgð fyrir hvert og eitt okkar og eins og alltaf fylgir aukinni ábyrgð möguleikar og tækifæri. Opnun og uppbrot á viðteknum hefðum og föstum býður auðvitað líka upp á breytingar til góðs.

Áföll og óáran vekja alltaf sérstaka athygli og verða skiljanlega fyrirferðamikil í fréttum og umræðu. En það er fleira en váleg tíðindi sem hafa komið okkur á óvart á árinu sem er að líða. Þótt okkur kunni að finnast það ótrúlegt þá segir tölfræðin okkur að þrátt fyrir sífelldar fréttir af stríði og hryðjuverkum, þá sé þrátt fyrir allt friðvænlegra á jörðinni en áður og að færri hryðjuverk séu framin. Aldrei hefur jafn hátt hlutfall jarðarbúa búið við skárri lífsskilyrði, læsi er almennara en nokkurn tímann fyrr og aðgengi að upplýsingum og ákvarðanatöku sömuleiðis betra. Þetta á að vera okkur hvatning til að gera enn betur.

Með samstarfi og samvinnu ólíkra hópa og landa hefur ótrúlegri en jafnframt sérlega jákvæðri niðurstöðu verið náð í mikilvægum málum sem varða okkur öll. Það eru auðvitað stórtíðindi að ríki heimsbyggðarinnar hafi náð saman í Parísarsáttmálanum um marktækar aðgerðir í loftslagsmálum. Það eru risastór skilaboð um að við getum náð saman um mikilvæg markmið til að bregðast við vandamálum sem bitna á okkur öllum sameiginlega.

Önnur dæmi um jákvæð teikn eru t.a.m. yfirlýsing leiðtoga fjögurra landa V-Afríku um að berjast gegn og stöðva umskurð kvenna en yfirlýsing þessi nær til rúmlega 300 samfélaga þessara landa. Eins er sögulegt friðarsamkomulag sem komið var á milli stjórnvalda í Kólumbíu og skæruliðasamtakanna FARC sem batt enda á 52 ára átök og ófrið sem hefur m.a. valdið því að um 7 milljónir manna hafa þurft að flýja heimili sín.

Árið 2016 gaf okkur þar með dæmi og fyrirmyndir að því að með samstilltu átaki er hægt að komast að sameiginlegri niðurstöðu sem getur haft áhrif til góðs. Til þess að þetta geti gerst verður að slíðra vopnin, gefa mátulega eftir og mætast á miðri leið.

Árið 2015 var að mörgu leyti ár lognmollu í íslenskum stjórnmálum. Það átti heldur betur eftir að breytast á árinu 2016. Afhjúpun panama-skjalanna setti allt upp í loft. Það gróf undan viðkvæmu trausti til stjórnmálanna sem hafði verið að smábyggjast upp eftir kollsteypu hrunsins. Á endanum þurfti forsætisráðherra að segja af sér embætti og kosningum var flýtt fram á haustið. Niðurstöður kosninganna voru og óljósar og erfiðar úrlausnar. Ríkisstjórnin missti meirihluta sinn en stjórnarandstaðan fékk ekki heldur meirihluta. Nýr flokkur komst á þing og bætist í hóp tveggja annara nýrra flokka sem hafa bæst í íslensku stjórnmálaflóruna frá hruni. Hvorki hægri armurinn né sá vinstri fengu skýran stuðning heldur fengu flokkar sem skilgreina sig sem miðjuflokka, eða hvorki hægri né vinstri, góða kosningu. Þetta er mikil uppstokkun á íslensku stjórnmálalandslagi og verður athyglisvert að sjá hvað framhaldið verður. Breytt staða kallar á að það sé unnið úr henni og lausnir fundnar. Það tókst að samþykkja þverpólitísk fjárlög í desember þegar ekki var fyrir hendi tryggur meirihluti eins og venjulega. Það að ekki sé hægt að halla sér að því sem hefur virkað hingað til kallar á eitthvað nýtt. Þótt staðan sé snúin þá felast líka í henni óþekkt tækifæri. Það er á ábyrgð okkar sem störfum í stjórnmálum að finna leiðir til að vinna saman landi og þjóð til gagns.

Þótt liðið ár hafi komið á óvart og kollvarpað ýmsu sem fæsta grunaði að gæti breyst, þá er óþarfi að örvænta. Á bak við þessar breytingar er oft jákvæð þróun á borð við gagnsæi og aukið aðgengi að upplýsingum, nýjar og skilvirkari samskiptaleiðir, valdefling einstaklinga og hópa sem áður voru afskiptir, aukið aðgengi að valdastofnunum og stjórnsýslu osfrv. Slíkar breytingar geta verið hættulegar ef þær eru misnotaðar eða ekki teknar alvarlega. En af hverju ættum við að leyfa því að gerast? Við vitum betur. Það eru allir sammála um að friður er betri en stríð, að mannréttindi eru betri fyrir heildina en kúgun sumra af hendi annara. Við þurfum bara að stíga upp og fylgja þessari vissu eftir. Þótt 2016 hafi sýnt okkur að heimurinn sé í sífelldri breytingu er ekkert að óttast. Þvert á móti. Veröldin breytist hratt og það er að miklu leyti á okkar eigin ábyrgð að þær breytingar séu breytingar til góðs. Framtíðin er til allrar hamingju ennþá óskrifað blað.

Góða ferð og gleðilegt ár.

 

 

 

 

Fylgstu með!

Skráðu þig á póstlistann og fáðu vikulegt fréttabréf sent.