« Björt Ólafsdóttir um stefnuræðu forsætisráðherra
Stjórnarfundur og sumarslútt »

Áherslur í fjármálaáætlun 2018 – 2023

Birt þann 02.04.17

Fjármálaáætlun fyrir hið opinbera til fimm ára var lögð fram á Alþingi þann 31. mars 2017.

Á næstu árum verður sérstök áhersla á uppbyggingu innviða og eflingu velferðarkerfisins, m.a. með auknum útgjöldum til heilbrigðis- og menntamála.

Fjöldamörg verkefni rúmast innan fjármálaáætlunarinnar, þar á meðal verkefni sem snúa að helstu áherslumálum ríkisstjórnarinnar.

Lýðheilsa, geðheilbrigði og öldrunarþjónusta meðal forgangsmála

Meðal þeirra verkefna sem Óttars Proppé heilbrigðisráðherra mun leggja áherslu á eru:

Á sviði lýðheilsu og forvarna verður áfram unnið að eflingu heilsu og heilbrigðra lifnaðarhátta og stutt við heilsueflandi skóla og heilsueflandi samfélög. Áhersla verður á verkefni tengd geðrækt, skaðaminnkun, ristilskimun, kynheilbrigði og forvörnum gegn kynsjúkdómum.

Áfram verður unnið að uppbyggingu Landspítala við Hringbraut, þar sem núverandi húsakostur verður þar bættur og áfram unnið að því að tryggja nægilega mönnun.

Þjónusta heilsugæslunnar verður styrkt meðal annars með fjölgun fagstétta sem veita þar þjónustu, t.d. sjúkraþjálfara, næringarfræðinga og sálfræðinga.

Geðheilbrigðisþjónusta verður efld meðal annars með fjölgun sálfræðinga í heilsugæslu og framhaldsskólum og ýmsu fleiru á því sviði.

Öldrunarþjónustan verður styrkt með áframhaldandi stuðningi við heimahjúkrun, endurhæfingu og dagdvöl og fjölgun hjúkrunarrýma.

Áfram verður unnið að styttingu biðlista eftir ákveðnum aðgerðum.

Nýtt greiðsluþátttökukerfi  tekur gildi 1. maí nk. og stefnt er að lækkun greiðsluþátttöku vegna heilbrigðisþjónustu á  tímabilinu.

Innleiðing aðgerðaráætlunar í loftslagsmálum, fjölbreytt og virk vistkerfi og friðlýstum svæðum fjölgað

Verkefni sem Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra mun meðal annars setja í forgrunn eru:

Að leiða vinnu við að móta og innleiða aðgerðaráætlun í loftslagsmálum fyrir Ísland til ársins 2030 í því skyni að uppfylla ákvæði Parísarsamkomulagsins, þar sem minni losun gróðurhúsalofttegunda frá röskuðum vistkerfum og binding kolefnis í jarðvegi og gróðri eru hluti af þeim leiðum sem farnar eru til að draga úr nettólosun og móta stefnu í loftslagsmálum til ársins 2050.

Lögð er áhersla á stjórnun nýtingar á viðkvæmum og mikilvægum svæðum með uppbyggingu viðeigandi innviða, friðlýsingum, gerð stjórnunar- og verndaráætlana, auk gerðar sérstakrar áætlunar um vernd miðhálendisins sem mun nýtast til undirbúnings við stofnun miðhálendisþjóðgarðs.

Fjölbreytt og virk vistkerfi séu undirstaða velferðar og að landnýting og endurheimt raskaðra vistkerfa taki mið af aðferðafræði vistkerfisnálgunar sem byggir á samspili allra þátta innan vistkerfis, þ.á m. mannsins.

Metnaður lagður í áherslu á græna hagkerfið og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda.

Unnið verður að einföldun regluverks og aukin skilvirkni í stjórnsýslu með notkun rafrænna lausna ásamt áherslu á samþættingu verkefna og aukna samvinnu á milli stofnana.  Meginmarkmið fyrir málefnasviðið er aukin vernd náttúrunnar og stefnt er að því að friðlýstum svæðum verði fjölgað um tíu á tímabilinu, aukin sjálfbærni í nýtingu náttúruauðlinda og aukin lífsgæði landsmanna.

Önnur verkefni sem koma til á kjörtímabilinu eru:

  • Fyrirhugað er að kaupa þrjár þyrlur fyrir Landhelgisgæsluna.
  • Dýrafjarðargöng og Herjólfur verða tekin í gagnið á tímabilinu og áfram verður haldið við fjárfestingar í vegakerfinu sem og aukið viðhald. Verkefninu Ísland ljóstengt lýkur á tímabilinu.
  • Útgjöld til háskólastigsins verða aukin til að auka gæði og standast alþjóðlegan samanburð.
  • Uppbyggingu innviða ferðaþjónustunnar verður sinnt á ferðamannastöðum og í samgöngukerfinu.
  • Hámarksgreiðslur til foreldra í fæðingarorlofi verða hækkaðar umtalsvert á tímabilinu.
  • Frítekjumark vegna atvinnutekna eldri borgara verður hækkað á tímabilinu. Stuðningur við öryrkja verður endurskoðaður, meðalgreiðslur hækkaðar og aðstoð við atvinnuleit aukin.
  • Stofnframlög til byggingar almennra leiguíbúða munu mæta vaxandi húsnæðisþörf.
  • Notendastýrð persónuleg aðstoð verður lögfest.
  • Úrræði til fyrstu húsnæðiskaupa verða styrkt.
  • Tekið verður á móti stórauknum fjölda kvótaflóttamanna og hælisleitenda.

 

Fylgstu með!

Skráðu þig á póstlistann og fáðu vikulegt fréttabréf sent.