« Stjórnarfundur og sumarslútt
Ársfundur Bjartrar framtíðar 2017 »

Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum – óskað eftir tillögum frá almenningi

Birt þann 12.07.17

bjortplastBjört Ólafsdóttir umhverfisráðherra hefur hafið vinnu við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem miðar að því að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar skv. Parísarsamningnum í loftslagsmálum til 2030. Áætlunin á að liggja fyrir í lok árs 2017.

Á vefnum co2.is kemur fram að sex ráðherrar í ríkisstjórn Íslands skrifuðu undir viljayfirlýsingu um gerð áætlunarinnar en vinnan er leidd af forsætisráðuneytinu og umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Með áætluninni er stefnt að því að setja fram aðgerðir sem ætlað er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi og auka bindingu koldíoxíðs úr andrúmslofti.

Sérstök verkefnisstjórn og sex faghópar vinna áætlunina, en við vinnu aðgerðaáætlunarinnar er áhersla lögð á samráð við haghafa og að sjónarmið og tillögur komi frá aðilum utan stjórnkerfisins.

Í því augnmiði er starfandi samráðsvettvangur þar sem eiga sæti fulltrúar haghafa og flokka í minnihluta á Alþingi en auk þess er almenningur hvattur til að senda inn hugmyndir og tillögur að aðgerðum í gegnum netfangið loftslag@uar.is

  • Athugið að allar innsendar tillögur og ábendingar verða birtar undir nafni sendanda og er því óskað eftir að fullt nafn sendanda komi fram í tölvupóstinum.
  • Meginverklag við birtingu er að birta bæði yfirskrift tölvupósts og efni hans eins og það kemur frá sendanda.
  • Ráðuneytið áskilur sér rétt til að birta ekki efni sem er meiðandi eða óviðeigandi á annan hátt.

Fylgstu með!

Skráðu þig á póstlistann og fáðu vikulegt fréttabréf sent.