« Ný stjórn Bjartrar framtíðar
Guðlaug Kristjánsdóttir nýr stjórnarformaður BF »

Ársfundur Bjartrar framtíðar ályktar um stjórnmál líðandi stundar

Birt þann 02.09.17

Stjórnmálaályktun ársfundar Bjartrar framtíðar 2017

Björt framtíð er nú í fyrsta skipti aðili að ríkisstjórn og fer með tvo mjög mikilvæga málaflokka í ríkisstjórninni. Ríkisstjórnin er með minnsta mögulega meirihluta og í því ljósi er mikilvægt að leitast við að ná sem mestri sátt um einstök mál. Björt framtíð hefur lagt áherslu á bætt vinnubrögð í málflutningi sínum og telur mikilvægt að vandað sé til verka við stefnumörkun og lagasetningu.
Ársfundur Bjartrar framtíðar telur mikilvægt að ráðherrar flokksins gæti þess við undirbúning mála að hafa víðtækt samráð jafnt við hagsmunaaðila og aðra stjórnmálaflokka. Við langtíma stefnumörkun þarf að tryggja víðtæka sátt um markmið og helstu leiðir.
Björt framtíð harmar að ekki hafi tekist að ná sátt við aðila í ferðaþjónustu um eðlilega gjaldtöku af ferðamönnum til að standa undir auknum kostnaði samfélagsins og nauðsynlegri uppbyggingu innviða.
Heilbrigði
Með áframhaldandi eflingu heilsugæslunnar, aukinni fjarheilbrigðisþjónusta og bættu aðgengi að upplýsingum felast mikilvæg tækifæri til að bæta gæði þjónustunnar, til að auka aðgengi einstaklinganna að þjónustunni og til að styðja við heilsueflingu. Bygging nýs Landspítala sem hefst á árinu 2018 er mesta framfaraskerf í íslenskri heilbrigðisþjónustu um margra áratuga skeið.

 • Mannauður
  Eitt grundvallarviðfangsefni heilbrigðiskerfisins sé að tryggja nægan fjölda af hæfu starfsfólki. Mikilvægt er að starfsumhverfi sé aðlaðandi, samskipti séu góð, stjórnun sé uppbyggileg og markviss, starfsfólk njóti menntunar og reynslu og hafi tækifæri til starfsþróunar. Brýnt er að vinna mannaflaspá fyrir heilbrigðisþjónustuna.
 • Heilsugæslan
  Áfram þarf að vinna að því að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað og að styrkja þjónustuna með fjölgun faghópa í heilsugæslunni, aukinni teymisvinnu og bættu aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu. Mikilvægt er að bæta aðgengi að upplýsingum um þjónustuna.
 • Samvinna heilbrigðisstofnana
  Áríðandi er að auka samvinnu og samráð milli heilbrigðisstofanana, bæði hvað varðar þjónustu og rekstur. Með aukinni samvinnu má bæta gæði þjónustu, nýtingu sérfræðiþekkingar, samhæfingu ferla og bæta aðgengi og jafnræði. Mikilvægt er að styrkja innkaup og samningsstöðu um verð lyfja í samstarfi við Norðurlöndin og önnur Evrópulönd.
 • Geðheilbrigðisþjónusta og forvarnir
  Mikilvægt er að halda áfram að bæta aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu á vettvangi heilsugæslunnar, á sjúkrahúsum og hjá öðrum meðferðaraðilum. Hér skiptir aðgangur að upplýsingum um þjónustuna sem og samvinna og samhæfing mikilu máli. Enn meiri áherslu þarf að leggja á forvarnir, skaðaminnkun og eftirfylgni.
 • Fjarheilbrigðisþjónusta
  Nýsköpun á sviði fjarheilbrigðisþjónustu er mikilvægur vaxtarbroddur heilbrigðisþjónustunnar. Með eflingu fjarheilbrigðisþjónustu má aðgengi að þjónustu, samvinnu þeirra sem veita þjónustuna og gæði þjónustunnar.
 • Lýðheilsa
  Áframhaldandi uppbygging heilsueflandi samfélaga styrkir lýðheilsu og fjölgar tækifærum einstaklinga til að velja heilsusamlega lífshætti. Með fjölgun faghópa á vettvangi heilsugæslunnar, t.d. næringarfræðinga og sjúkraþjálfara, styrkist þverfagleg nálgun við forvarnir og ráðgjöf um heilbrigða lífshætti.

Umhverfi og náttúra
Loftlagsmál eru stærsta áskorun Íslendinga sem og annarra þjóða í umhverfismálum. Björt framtíð leggur mikla áherslu á að stjórnvöld og samfélagið allt vinni saman að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í takt við skuldbindingar Ísland í Parísarsamkomulaginu. Björt framtíð fagnar því hversu vel umhverfis- og auðlindaráðherra hefur tekist að koma á nýjum vinnubrögðum innan stjórnsýslunnar við gerð aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum til 2030.

 • Hvítbók um náttúruauðlindir landsins
  Björt framtíð telur nauðsynlegt að fá fram heildstæðar upplýsingar um náttúruauðlindir Íslands og ástand þeirra til að byggja undir stefnu ríkisstjórnarinnar um að: „nýting auðlinda til lands og sjávar verði ætíð í jafnvægi þannig að komandi kynslóðir megi njóta sömu gæða og þær sem nú byggja landið.“ Björt framtíð styður því eindregið áform umhverfis- og auðlindaráðherra um gerð hvítbókar um náttúruauðlindir landsins.
 • Stofnun Þjóðgarðastofnunar
  Fjöldi ferðamanna sem kemur til landsins til að upplifa íslenska náttúru hefur aukist gríðarlega á undaförnum árum, auk þess sem Íslendingum sem stunda útivist hefur fjölgað. Samhliða þessu hefur álag á náttúru landsins stóraukist. Mikilvægt er að sameina verkefni og styrkja faglegt starf er lúta að verkefnum náttúruverndar. Björt framtíð styður því eindregið áform umhverfis- og auðlindaráðherra um stofnun þjóðgarðastofnunar þar sem þessi málefni munu fá stoðþjónustu á einum stað.
 • Verndun náttúru og menningarminja
  Náttúra landsins er undirstaða vaxtar í ferðaþjónustu og þar með efnahagsvaxtar undanfarinna ára. Björt framtíð leggur þunga áherslu á að stefnumarkandi áætlun stjórnvalda um uppbyggingu, rekstur og viðhald innviða í þágu náttúruverndar og til verndar menningarminjum verði tryggt fjármagn til styrktar áðurnefndri undirstöðu. Flokkurinn leggur einnig áherslu á mikilvægi landvörslu í þessu samhengi og að stefnt verði að því að tryggja stöðu greinarinnar í náttúrvernd á Íslandi.
 • Miðhálendisþjóðgarður
  Björt framtíð styður stofnun miðhálendisþjóðgarðs enda nauðsynlegt að varðveita náttúruverðmæti miðhálendisins sem eru einstök á heimsvísu. Flokkurinn telur það lykilatriði að heimamenn í þeim sveitarfélögum sem hafa skipulagsvald á miðhálendinu komi að því að skapa umgjörðina og móta verndar- og stjórnunaráætlun í miðhálendisþjóðgarði. Auk mikilvægi náttúruverndar sem undirstöðu stofnunar miðhálendisþjóðgarðs leggur Björt framtíð áherslu á að sjálfbær hefðbundin nýting líkt og sjálfbær beit og sjálfbærar veiðar rúmist innan þjóðgarðsins.

Húsnæði
Björt framtíð telur ákaflega mikilvægt að húsnæðismál, skipulagsmál og fjölskyldumál séu hugsuð heildstætt.

 • Fjármögnun húsnæðis                                                                                                             Innkoma lífeyrissjóða á húsnæðismarkaðinn gerist í skjóli þess að um þá gilda ekki sambærilegar reglur og aðrar lánastofnanir á markaði með húsnæðislán. Mikilvægt er til framtíðar að þessar reglur séu samræmdar, að aðilar sitji við sama borð og að ekki þróist hér markaður þar sem einstaka lánastofnanir fleyta rjómann ofan af markaðnum og eftirláta öðrum vandamálin.
 • Fyrstu kaup
  Fyrstu kaup á húsnæði hafa sjaldan eða aldrei í sögunni verið erfiðari en í dag og þarf að huga sérstaklega að því hvernig fjármögnun á fyrstu kaupum á íbúðarhúsnæði verði gerð einfaldari og auðveldari.
 • Félagslegt húsnæði
  Það er lögboðin skylda sveitarfélaga að tryggja fólki húsnæði og mikilvægt er að settar séu um þessa skyldu skýrar reglur þar sem einstök sveitarfélög geti ekki skotist undan ábyrgð og velt vandanum á önnur sveitarfélög. Björt framtíð telur mikilvægt að leitað sé allra leiða til að tryggja þátttöku allra sveitarfélaga í uppbyggingu félagslegs húsnæðis og bendir á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem verkfæri sem beita má til að þrýsta á þátttöku allra.
 • Framboð húsnæðis
  Á húsnæðismarkaði er mikið ójafnvægi milli framboðs og eftirspurnar eftir húsnæði. Til að bregðast við þessu hafa m.a. verið sett lög um heimagistingu sem skilja milli deili-hagkerfisins og þeirra sem vilja stunda íbúða- og húsaleigu í atvinnuskyni. Björt framtíð telur mikilvægt að þessari lagasetningu sé fylgt eftir með átaki þar sem tekið er á ólöglegri útleigu húsnæðis. Það er ekki til neins að setja lög ef þeim er ekki framfylgt.

Samgöngur
Björt framtíð telur mikilvægt að samstarf ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um Borgarlínu hefjist hið allra fyrsta og stigin verði ákveðin skref í þá veru strax í vetur.
Ef ríkisstjórnin ætlar að beita sér fyrir lausn á áratugadeilu um framtíð Reykjavíkurflugvallar er mikilvægt að hafist sé handa strax með því að stofna til formlegra viðræðna samgönguyfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, Reykjavíkurborgar, annarra sveitarfélaga og hagsmunaaðila.
Björt framtíð telur að skoða þurfi kosti þess að hefja gjaldtöku á helstu stofnbrautum út af höfuðborgarsvæðinu en í því felast tækifæri til að gera stórátak í uppbyggingu vegakerfisins þar sem umferðin er mest. Forsendan er að gjaldtakan standi undir framkvæmdunum og að vegafé verði ekki skert á móti heldur frekar aukið í og það notað til uppbyggingu samgagna á landsbyggðinni.

Samfélagið
Björt framtíð leggur áherslu að hafist verði handa strax í vetur við að gera úttekt á aðgengi landsmanna að þjónustu, meðal annars með það fyrir augum að jafna kostnað íbúa við að njóta lögbundinnar grunnþjónustu.

Mannréttindi
Mikilvægt er að standa mynduglega við barnasáttmála, mannréttindasáttmála SÞ og aðra sáttmála þegar kemur að málaflokknum. Eins að við styðjum við að Ísland taki á móti fleiri kvótaflóttamönnum og standi þannig sína plikt sem friðsæl og rík þjóð í alþjóðasamfélaginu. Unnið skuli að lögfestingu NPA í samræmi við stjórnarsáttmála.

Betra fjölskyldulíf
Björt framtíð vill að umhverfi barnafjölskyldna á Íslandi sé bætt og telur mikilvægt að í allri stefnumótun sé horft til þarfa barna og barnafjölskyldna. Það er mikilvægt að fólk á öllum aldri geti lifað af laununum sínum eða lífeyri.

Björt framtíð telur löngu tímabært að við samninga á vinnumarkaði sé horft til þess að draga úr þörfinni fyrir langan vinnudag einungis til að bæta tekjur og að laun fyrir dagvinnu dugi til framfærslu.

 • Fæðingarorlof
  Hækkun tekjuþaks við töku fæðingarorlofs skapar hvata til að báðir foreldrar nýtir sér fæðingarorlofsréttinn og er mikilvægt og nauðsynlegt skref í jafnréttisbaráttunni.
 • Leik og grunnskólinn
  Björt framtíð telur mikilvægt að ríki og sveitarfélög vinni sameiginlega að því að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Krafan um aukna þjónustu sveitarfélga á þessu sviði er rík og mikilvægt er að endurskoða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga og tekið sé mið af þeim breytingum sem hafa verið í umhverfinu. Björt framtíð telur mikilvægt að fá fagmenntað fólk til starfa í leik- og grunnskólum. Í þessu sambandi er mikilvægt að horfa bæði til kennaramenntunar og launakjara kennara og gera nauðsynlegar úrbætur sem tryggi faglegt starf og ánægju starfsfólks sem sinnir menntun barnanna okkar. Björt framtíð fagnar þeirri þróun sem verið hefur í átt til þess að námsgögn í grunnskólum séu gjaldfrjáls og telur mikilvægt að þetta verði reglan hjá sveitarfélögum um allt land.

Menning
Björt framtíð leggur ríka áherslu á hverskonar menningu.
Flokkurinn leggur áherslu á að öll börn eigi sömu tækifæri til menningar og listnáms.
Húsnæðismál Listaháskóla Íslands verði leyst með varanlegum kosti sem hæfir starfseminni.
Staðinn verði vörður um þá menningargersemi sem RÚV er.

Atvinna
Björt framtíð leggur áherslu á að í samræmi við stjórnarsáttmála verði strax hafist handa við að einfalda veitingu atvinnuleyfa fyrir fólk utan Evrópska efnahagssvæðisins. Meta ber menntun þeirra sem flytjast til Íslands að verðleikum og tryggja að aðbúnaður geri landið eftirsóknarvert til framtíðar.

Ferðaþjónusta
Ferðaþjónustan er einstakt tækifæri fyrir ísland, fyrir byggðir landsins og framtíðar afkomu þjóðarinnar.

Björt framtíð leggur áherslu á að hún megi áfram dafna í sátt og samlyndi við samfélagið, náttúrú landsins og atvinnulífð. Til þess þarf skýra framtíðarsýn um sjálfbærni í nýtingu náttúrunnar, uppbyggingu inviða og rekstrarumhverfi atvinnugreinarinnar. Hugmyndin um styrkingu þjóðgarðkerfisins með stofnun þjóðgarðastofnunnar og stækkun og eða fjölgun þjóðgarða á íslandi er kjarnin í því að ná tökum á þeim vexti og vaxtaverkjum sem glímt hefur verið við undanfarin misseri. Einkum og sér í lagi við náttúruperlur landsins og ósnortin víðerni sem eru helstu verðmæti íslendinga framtíðarinnar.

Landbúnaður
Björt framtíð telur mikilvægt að finna lausnir á vanda bænda þar sem horft er lengra fram í tímann en aðeins einn vetur í einu. Björt framtíð varaði eindregið við núverandi búvörusamningi áður en hann var samþykktur og fékk í gegn að hann er nú til endurskoðunar. Breytingar á búvörusamningi og búvörulögum skulu miða að því að leggja áherslu á aukna umhverfisvernd, aukna framleiðni, hagsmuni og valfrelsi neytenda og bænda og fjölbreytt vöruúrval. Við endurskoðun búvörusamnings á allt umhverfi landbúnaðarins og allur stuðningur við bændur að vera undir og það er mikilvægt að stuðningur við greinina verði í auknum mæli byggðatengdur.

Sjávarútvegur
Björt framtíð telur mikilvægt að sú vinna sem er í gangi á vegum sjávarútvegsráðherra um að kanna kosti þess að í auknum mæli verði byggt á langtímasamningum við úthlutun aflaheimilda og að tryggja betur að gjald fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind verði í eðlilegu hlutfalli við afrakstur veiðanna ljúki sem fyrst og hafist verði handa við tillögugerð og útfærslur.

Stjórnarskrá
Björt framtíð leggur mikla áherslu á að vinna við endurskoðun stjórnarskrár í samræmi við stjórnarsáttmála hefjist sem allra fyrst ef að markmið um að tillögur að breytingum verði lagðar fram eigi síðar en árið 2019 eigi að nást.

Endurskoðun bankakerfisins
Björt framtíð sér tækifæri í því að stór hluti bankakerfisins á Íslandi er nú í eigu ríkisins og telur að nota eigi tækifærið til að endurskoða kerfið í heild sinni með það að markmiði að hér starfi bankar sem henti íslensku samfélagi til hagsbóta fyrir fyrirtæki og einstaklinga sem þurfa á þjónustu bankakerfisins að halda.

Við endurskoðun kerfisins þarf m.a að huga að auknum aðskilnaði milli viðskipta og fjárfestingabanka og samræmingu reglna milli lífeyrissjóða og annara lánastofnana.

Aðskilnaður framkvæmda- og löggjafarvalds
Ársfundur Bjartrar framtíðar 2017 telur mikilvægt að reglur um að þingmenn sem taki að sér ráðherraembætti geti ekki kallað inn varamann á þing séu endurskoðaðar á kjörtímabilinu. Lagt er til að settar verði reglur í lok kjörtímabils sem auðveldar þeim flokkum sem telja eðlilegt að skilið sé betur á milli framkvæmdar og löggjafarvalds að gera það. Ársfundurinn skorar á þingmenn og ráðherra flokksins að beita sér fyrir þessari endurskoðun.
Evrópa
Björt framtíð er Evrópusinnaður flokkur. Við erum staðföst í þeirri trú okkar að Íslandi sé betur borgið innan Evrópusambandsins en utan þess. Ísland er hluti af Evrópu landfræðilega, efnahagslega og menningarlega!
Ársfundur Bjartrar framtíðar 2017 lýsir yfir ánægju sinni með umræðuna um gjaldmiðilsmál sem hefur verið í gangi undanfarna mánuði. Gjaldmiðilsmál voru tíðrædd af þingmönnum Bjartrar framtíðar á síðasta kjörtímabili og lögðu þeir ítrekað fram þingmál um að íslenska ríkið móti sér gjaldmiðilsstefnu. Íslenska krónan er ótraustur gjaldmiðill og uppihald hennar felur í sér gífurlegan kostnað fyrir Íslensku þjóðina. Það er skoðun Bjartrar framtíðar að skynsamlegra væri að stefna að upptöku evru samhliða aðild að Evrópusambandinu.
Dómsmál
Björt framtíð vill árétta að sjálfsögð mannréttindi eiga ekki að vera flokkspólitísk heldur verkefni allra sem starfa í stjórnmálum. Þegar kemur að kynferðisbrotum á brotaþolandi að njóta vafans bæði í regluverkinu og framkvæmdinni. Kerfin og lagaumhverfi eiga að styðja við þá sem standa höllum fæti, eru veikari fyrir og þurfa aðstoð eða þjónustu. Þetta á að vera leiðarljós. Reglur um uppreist æru eru úr gildi gengnar og þarf að afnema.
Lýðræðisvitund
Björt framtíð lítur á minnkandi kosningaþátttöku, sérstaklega meðal ungs fólks, sem mikið áhyggjuefni og telur mikilvægt að leitað verði allra leiða til þess að snúa þeirri þróun við þannig að lýðræðisvitund barna, unglinga og ungmenna verði aukin.
Ársfundi Bjartrar framtíðar 2017 þykir rík ástæða til þess að hrósa Landssambandi Ungmennafélaga (LUF) og Sambandi Íslenskra Framhaldsskólanema (SÍF) fyrir herferðina #ÉGKÝS sem hvatti ungt fólk til að mæta á kjörstað. Sérstakt hrós fá bæði samtökin fyrir framkvæmd skuggakosninga í framhaldsskólum landsins samhliða Alþingiskosningunum 2016. Slík verkefni eru mikilvægur liður í því að auka kosningaþátttöku og það er einlæg von okkar að þær verði að reglulegum viðburði. Sömuleiðis á KrakkaRÚV skilið hrós fyrir framkvæmd Krakkakosninga.
Eigi einstaklingur að borga skatta á hann líka að fá að hafa eitthvað um það að segja í hvað þeir fara, það er því óheppilegt að kosningaaldur og skattskylda skuli ekki haldast í hendur eins og er. Það er álit Bjartrar framtíðar að besta lausnin á því væri að lækka kosningaaldur í sextán ár. Því fylgir ábyrgð að búa í lýðræðissamfélagi og að fela fólki þá ábyrgð fyrr er mikilvægur liður í því að auka lýðræðisvitund ungs fólks. Samhliða þyrfti að auka fræðslu um lýðræði á öllum skólastigum.

Fylgstu með!

Skráðu þig á póstlistann og fáðu vikulegt fréttabréf sent.