« Tvö í framboði til stjórnarformanns: Guðlaug Kristjánsdóttir
Ný stjórn Bjartrar framtíðar »

Tvö í framboði til stjórnarformanns: G.Valdimar Valdemarsson

Birt þann 02.09.17

Á ársfundi Bjartrar framtíðar 2017 eru tveir frambjóðendur í framboði til stjórnarformanns, Guðlaug Kristjánsdóttir og G.Valdimar Valdemarsson. Allir skráðir félagar í Bjartri framtíð hafa kosningarétt og fer rafræn kosning fram frá kl.13-16 í dag, laugardaginn 2. september.

_mg_2933G.Valdimar er ritari Bjartrar framtíðar og var oddviti flokksins í NV-kjördæmi í Alþingiskosningunum 2016. Hér er framboðsræða hans sem flutt var á ársfundi:

Ágætu félagar

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram sem formaður stjórnar í Bjartri framtíð vegna þess að mér er annt um flokkinn okkar og tel að ég geti lagt mitt af mörkum til að byggja upp og viðhalda öflugu flokksstarfi sem er að mínu mati forsenda góðs árangurs í kosningum og í starfinu okkar fyrir kjósendur.

Ég hef áður gert grein fyrir því hvernig ég sé fyrir mér starf stjórnarformanns og hvaða áherslur ég myndi vilja leggja í því starfi og vil ég hér fara yfir það helsta.

Sveitarstjórnir

Stjórnarformaður er tengiliður á milli landsmála og sveitarstjórnar og á kosningaári til sveitarstjórna er það mikilvægasta hlutverk stjórnarformanns.

Ég hef yfir 25 ára reynslu í starfi í flokksfélagi í sveitarfélagi og þátttöku í sveitarstjórnarkosningum og í meirihlutasamstarfi og tel að sú reynsla geti gagnast mér vel í starfi stjórnarformanns og komið flokknum að gagni í komandi kosningum.

Ég tel mikilvægt að við hefjumst handa sem fyrst við að koma félagsstarfinu í einstökum flokksfélögum af stað til að vinna að undirbúningi komandi kosninga og ekki síður til að skapa liðsheildir sem vinna að sameiginlegu markmiði sem er árangur í kosningunum í vor.

Sveitarstjórnarkosningar vinnast á hverjum stað fyrir sig en ekki á landsvísu og árangur í þeim byggist á góðu starfi í flokksfélögunum, öflugri málefnastöðu og góðu fólki á framboðslistum.  Ég tel mikilvægt að stjórnarformaður geti helgað sig óskiptur kosningabaráttunni í öllum sveitarfélögunum. Ég mun þvi ekki  sækjast eftir, eða taka, sæti á lista fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Ég tel af fenginni reynslu að það fari ekki vel saman að vera í framboði á einum stað og ætla á sama tíma að sinna svo vel sé öllum framboðum sem vonandi verða sem víðast um landið.

Landsmálin

Við erum með fámennan þingflokk sem mun ganga í gegnum ákveðnar breytingar í vetur og ég tel að við þurfum að virkja baklandið í flokknum betur til að styðja við þingmennina okkar og ráðherra í þeirra störfum.

Það er mikilvægt að stjórnarformaður taki virkan þátt í störfum þingflokks m.a til að miðla upplýsingum inn í flokksstarfið og frá flokksmönnum til þingmanna og ráðherra.  Það er ekki síður mikilvægt hlutverk stjórnarformanns að mínu mati að miðla upplýsingum um einstök þingmál og þá afstöðu sem þingmenn taka, og hvers vegna, og að kalla á fólk sem þekkir til og fá álit flokksmanna í einstökum málum.

Eftir því sem við erum öll betur upplýst því auðveldara er fyrir okkur að taka afstöðu og jafnframt að tala fyrir þeirri afstöðu sem tekin er.  Ég tel að stjórnarformaður eigi að hlusta á grasrótina í flokknum og hafa frumkvæði að fundum þar sem umdeild mál eru rædd og komist að sameiginlegri niðurstöðu.

Það er að mínu viti líka mjög mikilvægt að flokksmenn séu vel meðvitaðir um það hvað okkar ráðherrar eru að sýsla og ég myndi því sem stjórnarformaður vilja koma á föstum fundum stjórarformanns og aðstoðarmanna ráðherra og miðla áfram til flokksmanna hvað er efst á baugi í þeirra störfum og hvers er að vænta.

Upplýsingar

Ég tel mikilvægt að við endurvekjum fréttabréf Bjartrar framtíðar og sé fyrir mér tvíþætt hlutverk fréttabréfsins.  Það er annars vegar tæki stjórnarformanns, kjörinna fulltrúa og annarra í flokknum til að upplýsa flokksmenn um starfið, ákvarðanir og afstöðu í einstökum málum og jafnramt er fréttabréfið tækifæri til að koma þessum sömu upplýsingum á framfæri við fólk utan flokksins eins og fjölmiðla og aðra áhugamenn um stjórnmál.

Gagnsæi og góðar upplýsingar eru forsenda þess að okkur líði vel í flokksstarfinu og eigum auðvelt með að tala fyrir flokknum okkar og okkar störfum.  Það er líka forsenda fyrir aðhaldi frá almennum flokksmönnum að þeir séu upplýstir um það sem er væntanlegt og geti látið álit sitt og skoðanir í ljósi og standi ekki frammi fyrir orðnum hlut.

Góð umræða og virk þátttaka í stefnumótun eykur áhuga flokksmanna og auðveldar okkur að fá nýtt fólk til liðs við okkur.  Þegar við tölum um betri vinnubrögð er best að byrja heima og ganga á undan með góðu fordæmi og fyrir því vil ég beita mér sem stjórnarformaður.  Það mun síðan smitast í öll okkar störf sem kjörnir fulltrúar.  Göngum á undan með góðu fordæmi og sínum í verki að okkur er alvara.

Björt framtíð

Við maurarnir í flokknum sem myndum baklandið á bak við kjörna fulltrúa erum hryggjarstykkið í flokknum.  Við mætum á fundi, söfnum undirskriftum, berum út bæklinga, sjáum um kaffið á kosningaskrifstofunum.  Við erum að þessu öllu saman vegna þess að að eigum okkur sameiginlega sýn á það hvernig framtíðin getur orðið bjartari og réttlátari.

Ég tel að mikilvægasta verkefni stjórnarformanns sé að hafa frumkvæði í flokksstarfinu og leita leiða til að gera það spennandi og eftirsóknarvert að mæta til starfa í Bjartri framtíð.  Við eigum að bíða spennt eftir næsta fundi og upplifa það að hlakka til að koma á fund og leggja okkur fram við að móta bjartari framtíð í sveitarstjórnum og á landsvísu.

Starfið þarf líka að vera gefandi og fjalla um meira en dægurmál stjórnmálanna á hverjum tíma. Við eigum að velta fyrir okkur heimsspekilegum spurningum um tilgangs alls og vera óhrædd að spyrja erfiðra spurninga, velta við steinum, sækja fræðslu og  gera tilraunir.

Ég tók þátt í stofnun Bjartrar framtíðar uppfullur af bjartsýni og smitaðist af dugnaði og kjarki margra sem voru að stíga sín fyrstu skref í stjórnmálastarfi.  Ég hef stundum sagt að ég hafi lært meira á fyrstu tveimur árunum í Bjartri framtíð en á tæpum 30 árum í Framsóknarflokknum.  Ég einsetti mér að læra og sjá hvernig nýtt fólk sem kemur með nýjar hugmyndir mótar starfið.  Það hefur verið skemmtilegur og lærdómsríkur tími.  Ég er kannski hokinn af reynslu með mína pólitísku fortíð en ég tel að sú reynsla sem ég hef í bakpokanum, ásamt nýjum hugmyndum og drifkrafti frá ykkur geti orðið farsæl blanda flokknum til góðs.

Að lokum

Ég á auðvelt með að sinna starfi stjórnarformanns vel með minni vinnu og tel mig hafa sýnt það í stöfum mínum fyrir Bjarta framtíð.  Ég hef á vinnustaðnum mínum  aðgang að tveimur fundarherbergjum þar sem hægt er að halda minni eða stærri fundi  með stjórnaformanni og eftir atvikum aðra flokksfundi.

Ég mun, verði ég kjörinn, leggja til lækkun á launum stjórnarformanns á fyrsta fundi framkvæmdastjórnar um 10% og þannig leggja mitt af mörkum til að bæta fjárhag flokksins.

Ég óska eftir stuðningi ykkar í kosningum til stjórnarformanns og er sannfærður að saman getum við gert framtíðina bjarta og flokksstarfið gott og skemmtilegt.

 

Um mig

Ég heiti G. Valdimar Valdemarsson og er giftur Sigurlínu Steinarsdóttur og við eigum þrjár dætur og eitt barnabarn og búum í Hofakri í Garðabæ.

Ég hef unnið sem forritari og framkvæmdastjóri fyrir eigin hugbúnaðarfyrirtæki samfellt frá árinu 1991.

Ég hef verið virkur í stjórnmálum allar götur frá 1982 fyrst í Framsóknarflokknum til 2011 og síðan tók ég þátt í stofnun Bjartrar framtíðar á árinu 2012.

Meðal starfa í stjórnmálum eða sem trúnaðarmaður fyrir stjórnmálaflokk má nefna helst eftirfarandi:

 • Starf í Sambandi ungra framsóknarmanna og félögum ungra framsóknarmanna í stjórnum félaga og sambandsins í fjölda ára, í miðstjórn, fulltrúi í þingflokki, í fulltrúaráði framsóknafélaga og margt fleira.
 • Stjórnarseta og formennska í NCF Nordisk centerungdomsforbund frá 1990 – 1995.
 • Stjórn flokksfélags og formennska í flokksfélagi.
 • Miðstjórnarmaður í yfir 20 ár formennska í málefnanefnd í 6 ár og alþjóðafulltrúi í 3 ár.
 • Í ógrinni nefnda og kosningastjórna m.a við allar sveitarstjórnarkosningar og kosningar til Alþingis frá 1990.
 • Sat í skólastjórn Telemark Distrikthögskule meðan ég stundaði nám við þann skóla.
 • Var fulltrúi í nefnd um lagasetningu um velferð námsmanna við háskóla í Noregi í 2 ár.
 • Sat í landsstjórn samtaka námsmanna í háskólum í Noregi í 3 ár.
 • Ritari Bjartrar framtíðar frá stofnun 2012
 • Varaformaður Samvinnunefndar um skipulag miðhálendisins í 4 ár.
 • Stjórnarmaður í Íbúðalánasjóði frá 2014.

 

Fylgstu með!

Skráðu þig á póstlistann og fáðu vikulegt fréttabréf sent.