« Lagabreytingatillaga ársfundar BF 2017
Tvö í framboði til stjórnarformanns: G.Valdimar Valdemarsson »

Tvö í framboði til stjórnarformanns: Guðlaug Kristjánsdóttir

Birt þann 02.09.17

Á ársfundi Bjartrar framtíðar 2017 eru tveir frambjóðendur í framboði til stjórnarformanns, Guðlaug Kristjánsdóttir og G.Valdimar Valdemarsson. Allir skráðir félagar í Bjartri framtíð hafa kosningarétt og fer rafræn kosning fram frá kl.13-16 í dag, laugardaginn 2. september.

guðlaugkristjánsGuðlaug Kristjánsdóttir er oddviti Bjartrar framtíðar í Hafnarfirði og forseti bæjarstjórnar. Framboðsræðan hennar er hér: 

Kæru félagar!

Björt framtíð er stútfull af hæfileikaríku hugsjónafólki. Fólki sem hefur gert, gerir og vill gera. Við höfum lent í lykilstöðu bæði í sveitarstjórnum og á þingi, og við höfum nýtt þau færi. Ekki endilega á þægilegan hátt sem virkar fljótt og vel á fylgismælingar og skoðanakannanir, en alltaf með okkar bjarta, hugrakka og ábyrga lagi.

Við höfum valið að vera með frekar en sitja hjá, taka slaginn og fara inn í hringiðuna frekar en standa á hliðarlínunni.  Af því við erum í stjórnmálum til að gera gagn. Af því við byggjum á langtímahugsun frekar en stundarhag.

Björt framtíð er í ríkisstjórn og fer með tvö gríðarlega vandasöm, annasöm og mikilvæg ráðuneyti. Heilbrigði lands og þjóðar, hvorki meira né minna.

Björt framtíð er í meirihluta í þremur stærstu sveitarfélögum landsins, Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði, og fjórði meirihlutinn er á Akranesi. Okkar fólk er í minnihluta í Garðabæ, á Akureyri og í Árborg.

Á sveitastjórnarstiginu eigum við fjölda fólks í nefndum, ráðum og stjórnum, jafnt innan sem þvert á sveitarfélög.

Á Alþingi eigum við fjögurra manna þingflokk, þar af tvo ráðherra, sem deila með sér þeim aragrúa verkefna sem þingstörfunum fylgir.

Það er brjálað að gera hjá Bjartri framtíð. Yfirbyggingin okkar er lítil og byggir á fáum, en sterkum, einstaklingum. Það er mikil áskorun í því fólgin að halda samskiptaleiðum opnum og tengja okkur öll saman innbyrðis, á alla kanta og vegu.

Stjórnarformaður hefur þetta hlutverk. Hann er tengill og virkjari. Hann hlustar og kemur skilaboðum áleiðis. Hann grípur bolta og gefur þá áfram, peppar, finnur færi og ýtir fólki áfram.

Þetta er það sem ég er að bjóða krafta mína í. Að taka við keflinu frá næsta hlaupara á undan, henni Evu, eftir mjög góðan sprett hjá henni í þessu boðhlaupi. Við erum flokkur í vexti og þróun og hvert ár hefur fært nýjar áskoranir. Áskorun næsta árs snýr vissulega að Alþingi og annríkinu þar, en ekki síður að sveitarstjórnunum. Þar eru að koma kosningar.

Hlutverk stjórnarformanns er hratt og það er flókið. Lifandi og skemmtilegt og ögrandi með öðrum orðum.

Ég tel mikilvægt að hlauparinn á þessu ári sé sterkur á svellinu á vettvangi sveitastjórnastigsins, en jafnframt með góða yfirsýn yfir það sem snýr að þinginu. Það vill svo til að þessi lýsing á prýðilega við um mig, mín fyrri störf, núverandi störf, reynslu, þekkingu og tengslanet. Ég hef gott nesti í þetta verkefni.

Það sem mig langar að vinna að og bæta, er til dæmis viðbragðsflýtir. Hvort sem áreitið kemur að utan eða innan úr grasrótinni. Við þurfum að fara inn í umræðuna í samfélaginu þegar hún er, ekki bíða.

Árangursríkt samtal og samvinna milli framvarða og baklands er grundvallaratriði og í hvert skipti sem það lukkast vel slær Bjarta framtíðarhjartað hraðar, bæði í opinberri umræðu og hjá okkur sjálfum.

Þessa vél þarf að smyrja og það vill svo til að ég hef beina reynslu af slíkri vinnu, bæði við að koma henni af stað og halda henni gangandi. Við getum gert þetta!

Það eru alltof margir þarna úti sem hafa unun af því að gerast sjálfskipaðir talsmenn fyrir stefnu Bjartrar framtíðar án þess svo mikið sem að kynna sér hana áður. Gefum þeim frí og gerum þetta sjálf!

Í bæjarstjórn Hafnarfjarðar gegni ég samræmingarhlutverki á þrenna vegu. Innan Bjartrar framtíðar (þar er sko aldrei lognmolla og mikið tekist á þótt það sjáist ekki endilega út á við), innan meirihlutans (líf og fjör þar líka, gríðarleg samningavinna alla daga) og innan bæjarstjórnarinnar allrar sem forseti. Það er reyndar helst að fjörið í þeim samskiptum hafi ratað í opin rými.

Það gefur stöðugt á bátinn, en liðsheildin innan BFH er eitilhörð, meirihlutinn er vel starfhæfur þrátt fyrir sundurleitni og bæjarstjórnin er að skila gríðargóðum árangri, betri með hverjum mánuðinum sem líður.

Ég viðurkenni alveg að stundum líður mér best úti í garði að tala við blómin og hænurnar, þegar hamagangurinn er mikill, en ég sæki nú samt í sáttasemjarastörfin og allt það sem þeim fylgir, hvar sem ég kem. Og stend mig bara býsna vel.

Hjá Háskólanum vinn ég við að virkja starfandi sjúkraþjálfara til að kenna framtíðarkollegum. Það starf er dreift um víðan völl, landið allt og engir tveir dagar eins. Það gengur líka prýðisvel.

Í þeim stjórnunarstörfum sem ég hef sinnt hef ég alltaf verið hluti af fámennu teymi. Ég hef sett upp og haldið úti heimasíðum, félagsmiðlum, skráningum, samskiptum. Sent út fréttir, skrifað pistla, efnt til fjöldafunda. Ykkur er alveg óhætt að treysta mér til að vinna handa- og fótavinnuna – þó ég muni að sjálfsögðu vera dugleg að virkja fólkið í kringum mig.

Kæru vinir, mig dauðlangar að spreyta mig á „móðurskipinu“ eins og við í Firðinum köllum „landsvísuna“. Tengja, splæsa, kveikja, rækta, ýta og draga. Ég vona að þið gefið mér umboð til þess.

Björt framtíð er í lykilstöðu, hvað sem hver segir. Við erum að hafa áhrif á þjóðmálin vítt og breitt. Við erum á vaktinni jafnt á þingi sem í sveitastjórnum.

Höldum ótrauð áfram veginn, áfram Björt framtíð!

Um frambjóðandann:

Guðlaug Kristjánsdóttir er oddviti Bjartrar framtíðar í Hafnarfirði, forseti bæjarstjórnar og formaður fjölskylduráðs. Hún situr í stjórn Tryggingastofnunar og Strætó bs. og starfar sem verkefnastjóri í hálfu starfi hjá Námsbraut í sjúkraþjálfun við HÍ, við utanumhald klínískrar kennslu.

Guðlaug var formaður Bandalags háskólamanna (BHM) frá 2008-2014 og þar áður formaður Stéttarfélags sjúkraþjálfara. Hún sat í stjórn Lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna (LSR) fyrir hönd BHM og hefur vottun FME í þau störf. Meðal fleiri trúnaðarstarfa fyrir BHM má nefna stjórnarsetu í Virk og Atvinnuleysistryggingasjóði, aðkomu að Samráðsvettvangi um aukna hagsæld, setu í Jafnréttisráði, auk fjölda nefnda á vegum aðila vinnumarkaðar og ráðuneyta, svo ekki sé minnst á kjarasamningagerð og stefnumótun um réttindamál á vinnumarkaði, svo sem lífeyrismál og jafnlaunavottun.

Sem sjúkraþjálfari starfaði Guðlaug meðal annars á LSH Fossvogi og fyrir MS-félagið, auk þess að taka þátt í stofnun og rekstri eigin stofu í Ásvallalaug í Hafnarfirði, Ásmegin.

Guðlaug tók þátt í stofnun Bjartrar framtíðar á landsvísu og skipaði 3. sæti á lista flokksins til Alþingis árið 2013. Einnig kom hún að stofnun BF í Hafnarfirði og leiddi þann lista í sveitarstjórnarkosninum árið 2014 þegar BFH fékk 19% atkvæða, 2 bæjarfulltrúa kjörna og tók sæti í meirihluta.

Guðlaug býr í Hafnarfirði með 3 sonum, 2 köttum og 2 hænum. Frítíma sínum ver hún í kórsöng, handavinnu og garðrækt auk ferðalaga innanlands, aðallega til Ísafjarðar þar sem hún á kærasta.

Fylgstu með!

Skráðu þig á póstlistann og fáðu vikulegt fréttabréf sent.