« Björt framtíð kynnir framboðslista fyrir Alþingiskosningar 2017
Náttúran er okkar fjöregg - friðlandið í Þjórsárverum ferfaldað að stærð. »

Björt framtíð ofurgrænn frjálslyndur flokkur

Birt þann 08.10.17

Óttarr Proppé formaður Bjartrar framtíðar um málefni Bjartrar framtíðar:

Fólk spyr mig um málefni Bjartrar framtíðar og sumir velta fyrir sér muninum á okkur og Samfylkingu. Mér finnst munurinn skýr en svar kallar á smá langloku.

Björt framtíð er frjálslyndur og ofurgrænn miðjuflokkur sem setur mannréttindi og bætt vinnubrögð á oddinn, reyndar svo mjög að við gáfum nýverið eftir valdastöðu og ráðherrastóla til þess að standa við okkar prinsip.

Við leggjum mikla áherslu á ábyrgð og langtímahugsun í okkar vinnubrögðum. Þetta á ekki síst við í ábyrgri efnahagsstjórn. Við vöruðum sterkt við skuldaniðurgreiðslum ríkisstjórnar Sigmundur Davíðs og Sjálfstæðisflokksins og bentum ítrekað á að þeir fjármunir kæmu ekki af himnum ofan. Enda kom á daginn að féð rann úr ríkissjóði og ekki í önnur brýn verkefni. Ég hef áhyggjur af því að stórtæk útgjaldaloforð fyrir þessar kosningar verði ekki svo auðveldlega fjármögnuð nú á toppi hagsveiflunar, hvað þá til langframa.

Björt framtíð og Samfylking eru sammála um margt, t.d. í málefnum útlendinga, um evrópusamvinnu og áherslu á velferðarþjónustu. Þar skilur þó að. Samfylkingin talar stíft gegn einkarekstri í velferðarþjónustu á meðan Björt framtíð sér ekki fyrirstöðu í því að t.d. sjúkraþjálfarar og heimaljósmæður starfi sjálfstætt eða að Vogur, Domus medica og Reykjalundur sé rekið af öðrum en ríkinu. Það þarf að setja heildstæða stefnu í heilbrigðiskerfinu, skýra hver gerir hvað og tryggja að opinbert fé flæði ekki út. það þarf að styrkja Landspítala og opinbera kerfið en við styðjum ekki eina ríkislausn á öllum sviðum.

Björt framtíð leggur alla áherslu á framtíðina. Það þarf opið og skapandi umhverfi svo fólk geti notið sín. Það þarf að vera alls konar og það þarf að vera skemmtilegt. Það þarf að vera jafnræði og jafnvægi. Við hömrum á umhverfismálunum og stöndum fast gegn ívilnunum til mengandi stóriðjuuppbyggingar. Þar hafa flokkarnir til vinstri því miður ekki nógu góða sögu frekar en hinir gömlu flokkarnir.

Ég upplifi samfylkinguna sem sósial-demókratískan flokk sem hefur færst frá miðjunni til vinstri. Mér leiðist hugtakið forræðishyggja en hef áhyggjur af tilhneigingu hjá íslenska vinstrinu að finnast þau höndla hin eina góða sannleik. Hægri flokkarnir eru ekkert alveg saklausir af því heldur. Mér finnst að aukin svart/hvít, annað hvort/eða hugsun í pólitík sé varhugaverð. Að það séu tveir turnar til hægri og vinstri, punktur. Flestir eru einmitt einhvers staðar á milli. Samfélagið er flókið og þarf að fela sér margvíslegar vistarverur. Það þarf meiri sveigjanleika, ekki enn stífari flokkadrætti.

Það er tálsýn að halda að allt leysist ef þeir sem eru ósammála manni hverfi bara eða fari. Þannig virkar heimurinn ekki. Við þurfum sem samfélag að verða betri í að miðla málum og finna leið til að lifa saman.

Stóri munurinn á flokkunum finnst mér samt vera sá að Samfylkingin er stofnuð til að vera strúktúreruð valdastofnun. Samfylkingin átti að verða stóri andstæðingur Sjálfstæðisflokksins og speglar þess vegna valdapíramída og stofnanir andstæðingsins. Björt framtíð var sérstaklega stofnuð til þess að vera opin og þjónandi grasrótarhreyfing. Við leggjum upp með kvikt innra lýðræði, byggt á skýrum gildum, sem er ekki síst loforð um betra og opnara vinnulag. Mér finnst þetta ekki vera aukaatriði. Þetta skiptir meginmáli.

Fylgstu með!

Skráðu þig á póstlistann og fáðu vikulegt fréttabréf sent.