« Björt framtíð ofurgrænn frjálslyndur flokkur
Umhverfisstefna Bjartrar framtíðar í hnotskurn »

Náttúran er okkar fjöregg – friðlandið í Þjórsárverum ferfaldað að stærð.

Birt þann 09.10.17

Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra undirritaði í dag auglýsingu um friðlýsingu vegna stækkunar friðlandsins í Þjórsárverum.

„Í dag er stór dagur fyrir alla Íslendinga. Hjarta landsins hefur verið verndað sérstaklega með friðlýsingu og við höfum nú tekið annað stærsta skrefið á eftir stofnun Vatnajökulsþjógarðs í að varðveita fjöregg okkar Íslendinga sem við eigum í einstakri náttúru og víðernum á miðhálendi Íslands.

Ég setti mér strax tvö markmið þegar ég settist í stól umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir níu mánuðum síðan. Það fyrra var að taka á loftlagsmálum af röggsemi því við höfum alla burði til að gera þar miklu betur. Hið síðara var að vernda sérstakleg miðhálendið, þar sem ekki bara er að finna fallega og einstaka náttúru, heldur raunveruleg verðmæti til frambúðar.

Ég hef átt góða fundi með heimamönnum þar sem almennur velvilji var um að áfram yrði haldið með það samkomulag sem gert var árið 2013 um stækkun friðlandsins, en náði þá ekki fram að ganga. Þá voru áformin nú send til umsagnar í þrjá mánuði og voru athugasemdir almennt jákvæðar. Fjármagn mun jafnframt fylgja friðlýsingunni, því mikilvægt er að tillögur komandi stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir svæðið nái greiðlega fram að ganga.

Senn líður að lokum að ég gegni því embætti sem ég geri núna. Það hefur verið sannur heiður að fá að vinna að þjóðþrifamálum eins og þessu í starfi mínu fyrir land og þjóð. Vonandi er dagurinn í dag aðeins upphafið að því að vernda allt miðhálendið.“

Upprunaleg frétt af heimasíðu umhverfis- og auðlindaráðuneytinu:

Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra undirritaði í dag auglýsingu um friðlýsingu vegna stækkunar friðlandsins í Þjórsárverum.

Undanfarin ár hefur verið unnið að stækkun friðlandsins í Þjórsárverum til samræmis við samþykktir Alþingis á grundvelli náttúruverndaráætlunar og verndar- og orkunýtingaráætlunar. Svæðið var friðlýst árið 1981 og náði þá til 375 ferkílómetra. Með stækkuninni nú verður friðlandið í Þjórsárverum alls 1.563 ferkílómetrar. Fylgir friðlýsingin, sem nú hefur verið undirrituð, því samkomulagi sem náðist með hlutaðeigandi sveitarstjórnum vorið 2013 um afmörkun hins friðlýsta svæðis og þá friðlýsingarskilmála sem gilda eiga um það svæði.

Friðlýsingin er unnin á grundvelli náttúruverndarlaga, nr. 60/2013. Ráðherra kynnti áform um stækkun friðlandsins á fundi með viðkomandi sveitarstjórnum í júní sl. og var tillaga þess efnis í kjölfarið sett í opið umsagnarferli á vef ráðuneytisins í þrjá mánuði, sem lauk 3. október sl.  Alls bárust ráðuneytinu átta umsagnir þar sem fram kom almennur velvilji gagnvart friðlýsingunni.

Þjórsárver hafa mikla sérstöðu og eru mikilvæg á alþjóðlega vísu. Þjórsárver eru ein víðáttumesta gróðurvin miðhálendisins, og er lífríki þeirra fjölskrúðugt og einstakt. Má þar sérstaklega nefna vistkerfi veranna, votlendi, varpstöðvar heiðagæsa, víðerni og sérstaka landslagsheild. Með stækkun friðlands í Þjórsárverum næst það markmið að tryggja víðtæka og markvissa verndun svæðisins í heild sinni.

Í kjölfar friðlýsingarinnar mun Umhverfisstofnun hefja vinnu við undirbúning að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir svæðið í samvinnu við sveitarstjórnir á svæðinu. Jafnframt mun samráð vera haft vegna ráðstöfunar skilgreinds fjárframlags ríkisins til svæðisins, í samræmi við samkomulag sem gert var árið 2013.

Fylgstu með!

Skráðu þig á póstlistann og fáðu vikulegt fréttabréf sent.