Ályktun stjórnar Bjartrar framtíðar

Hvernig sjáum við Ísland fyrir okkur eftir nokkur ár? Í svarinu við þeirri spurningu felst stefna Bjartrar framtíðar. Svona viljum við að Ísland sé. Að þessari björtu framtíð viljum við stefna eða eftir atvikum verja og viðhalda.

Mannréttindi, jafnrétti og friður

Við viljum beita okkur fyrir því að:

 • Íslendingar verði málsvarar mannréttinda, jafnréttis og friðar á alþjóðavísu og verði öðrum til eftirbreytni með róttækni sinni í þessum málum.
 • Á Íslandi ríki ævarandi og staðföst virðing fyrir fjölbreytileika mannlífsins, þar sem sumir eru svona og aðrir hinsegin.
 • Fullt jafnrétti ríki milli kynjanna og milli ólíkra þjóðfélagshópa, fólk njóti sömu launa fyrir sömu störf og jafnra tækifæra.
 • Ofbeldi sé ekki liðið, s.s. kynbundið ofbeldi, ofbeldi gegn börnum, einelti og annað ofbeldi sem oft er erfitt að koma auga á.
 • Allir einstaklingar, hvort sem þeir glíma við líkamlegar, félagslegar eða andlegar hindranir, eigi möguleika á sjálfstæðu lífi, með reisn og fái til þess aðstoð ef þarf.
 • Íslendingar leggi sitt af mörkum til friðar í heiminum með þátttöku í þróunarsamvinnu, hjálparstarfi og friðarumleitunum, en taki ekki þátt í hernaði.
 • Íslendingar taki vel á móti flóttamönnum og sinni málefnum innflytjenda af stakri prýði.

Uppvaxtarárin

Við viljum beita okkur fyrir því að:

 • Þjónusta við börn, unglinga og fjölskyldur þeirra sé ætíð sem best og það sé álitin kjarnastarfsemi í þjóðfélaginu að koma börnum til manns.
 • Fjölbreytni ríki á öllum stigum menntakerfisins svo fólk geti valið skóla með mismunandi áherslur fyrir börn sín.
 • Skólar lagi sig enn frekar að börnunum, þörfum þeirra og áhugasviði, námsánægja sé höfð að leiðarljósi og nemendur fái notið styrkleika sinna.
 • Kennsluefni og aðferðir séu í stöðugri mótun í takt við nýja tíma og skólar séu vakandi fyrir nýjum áherslum, s.s. á gagnrýna hugsun, siðfræði, listir, iðnmenntun, umhverfismál, heilsu eða hugleiðslu, svo sitthvað sé nefnt.
 • Börn og unglingar njóti góðs mataræðis, hreyfingar og alls konar möguleika á íþrótta- og tómstundaþátttöku.
 • Samfélagið styðji ólíkar fjölskyldugerðir og hvetji til þess að foreldrar sem ekki búa saman ali upp börn sín í sátt.
 • Börn fái notið bernsku sinnar.

Efnahagslífið og atvinnan

Við viljum beita okkur fyrir því að:

 • Á Íslandi ríki efnahagslegt jafnvægi með stöðugum gjaldmiðli og þar með lækki húsnæðisvextir, verðtrygging verði lögð af, rekstrarskilyrði fyrirtækja batni og Íslendingar njóti frjálsra alþjóðlegra viðskipta.
 • Fólk geti tekið sambærileg húsnæðislán og víðast í Evrópu og borgað þau niður á sanngjörnum kjörum.
 • Fjármálakerfið sé heilbrigt og hrynji ekki.
 • Auðlindir til lands og sjávar skili þjóðinni mun meira fé í sameiginlega sjóði, sem síðan nýtist til þess að bæta almenn skilyrði fyrir heimili og fyrirtæki af öllu tagi um allt land.
 • Ríki og sveitarfélög séu rekin af ábyrgð, skuldir borgaðar niður og að langtímahugsun ríki í efnahags-, atvinnu- og ríkisfjármálum.
 • Skammsýni víki almennt fyrir ábyrgri langtímastefnu.
 • Samfélagsleg markmið, s.s. í mannréttindamálum, umhverfismálum og hvað varðar siðferði í viðskiptum, setji svip sinn á áætlanagerð og fjárfestingar.
 • Ríkisrekstur sé ekki umfangsmikill en markviss og miði fyrst og fremst að því að tryggja góðan grunn og svigrúm að skapandi framtaki einstaklinga og samtaka þeirra.
 • Öðrum mælikvörðum en hagvaxtarmælikvörðum verði einnig beitt á efnahagslegar stærðir, þar sem litið verði til fleiri þátta mannlífsins, s.s. sjálfbærni þess og almennrar hagsældar.
 • Fjölbreytni ríki í atvinnulífinu og hún verði aukin með fjárfestingu eða annars konar hvatningu í skapandi greinum, grænum iðnaði, s.s. vistvænni tækniþróun og framleiðslu, hugverka- og þekkingariðnaði og aukinni rannsóknar- og þróunarstarfsemi.
 • Rekstri lítilla og meðalstórra fyrirtækja verði gert hærra undir höfði með einfaldara regluverki, skattaumgjörð og hvötum sem efla rekstur þeirra.
 • Fleiri forsendur skapist fyrir byggð í sveitum með fjölbreyttari starfsemi en hefðbundnum landbúnaði.
 • Að jarðvarmi verði í meiri mæli nýttur til ræktunar á grænmeti og ávöxtum.
 • Skatta- og tollakerfið verði einfalt, réttlátt og skiljanlegt og hvetji til innlendrar verslunar, nýsköpunar og vistvænnar atvinnustarfsemi og hindri sem minnst framtakssemi.
 • Góðir háskólar stundi öflugt rannsóknarstarf, bjóði upp á fjölbreytta menntun og svari líka kalli atvinnulífsins um þá þekkingu og kunnáttu sem þarf.
 • Námslán nægi námsmönnum fyrir námi hér á landi sem erlendis.

Fylgstu með!

Skráðu þig á póstlistann og fáðu vikulegt fréttabréf sent.