Ályktun stjórnar Bjartrar framtíðar

Hvernig sjáum við Ísland fyrir okkur eftir nokkur ár? Í svarinu við þeirri spurningu felst stefna Bjartrar framtíðar. Svona viljum við að Ísland sé. Að þessari björtu framtíð viljum við stefna eða eftir atvikum verja og viðhalda.

Mannréttindi, jafnrétti og friður

Við viljum beita okkur fyrir því að:

 • Íslendingar verði málsvarar mannréttinda, jafnréttis og friðar á alþjóðavísu og verði öðrum til eftirbreytni með róttækni sinni í þessum málum.
 • Á Íslandi ríki ævarandi og staðföst virðing fyrir fjölbreytileika mannlífsins, þar sem sumir eru svona og aðrir hinsegin.
 • Fullt jafnrétti ríki milli kynjanna og milli ólíkra þjóðfélagshópa, fólk njóti sömu launa fyrir sömu störf og jafnra tækifæra.
 • Ofbeldi sé ekki liðið, s.s. kynbundið ofbeldi, ofbeldi gegn börnum, einelti og annað ofbeldi sem oft er erfitt að koma auga á.
 • Allir einstaklingar, hvort sem þeir glíma við líkamlegar, félagslegar eða andlegar hindranir, eigi möguleika á sjálfstæðu lífi, með reisn og fái til þess aðstoð ef þarf.
 • Íslendingar leggi sitt af mörkum til friðar í heiminum með þátttöku í þróunarsamvinnu, hjálparstarfi og friðarumleitunum, en taki ekki þátt í hernaði.
 • Íslendingar taki vel á móti flóttamönnum og sinni málefnum innflytjenda af stakri prýði.

Uppvaxtarárin

Við viljum beita okkur fyrir því að:

 • Þjónusta við börn, unglinga og fjölskyldur þeirra sé ætíð sem best og það sé álitin kjarnastarfsemi í þjóðfélaginu að koma börnum til manns.
 • Fjölbreytni ríki á öllum stigum menntakerfisins svo fólk geti valið skóla með mismunandi áherslur fyrir börn sín.
 • Skólar lagi sig enn frekar að börnunum, þörfum þeirra og áhugasviði, námsánægja sé höfð að leiðarljósi og nemendur fái notið styrkleika sinna.
 • Kennsluefni og aðferðir séu í stöðugri mótun í takt við nýja tíma og skólar séu vakandi fyrir nýjum áherslum, s.s. á gagnrýna hugsun, siðfræði, listir, iðnmenntun, umhverfismál, heilsu eða hugleiðslu, svo sitthvað sé nefnt.
 • Börn og unglingar njóti góðs mataræðis, hreyfingar og alls konar möguleika á íþrótta- og tómstundaþátttöku.
 • Samfélagið styðji ólíkar fjölskyldugerðir og hvetji til þess að foreldrar sem ekki búa saman ali upp börn sín í sátt.
 • Börn fái notið bernsku sinnar.

Efnahagslífið og atvinnan

Við viljum beita okkur fyrir því að:

 • Á Íslandi ríki efnahagslegt jafnvægi með stöðugum gjaldmiðli og þar með lækki húsnæðisvextir, verðtrygging verði lögð af, rekstrarskilyrði fyrirtækja batni og Íslendingar njóti frjálsra alþjóðlegra viðskipta.
 • Fólk geti tekið sambærileg húsnæðislán og víðast í Evrópu og borgað þau niður á sanngjörnum kjörum.
 • Fjármálakerfið sé heilbrigt og hrynji ekki.
 • Auðlindir til lands og sjávar skili þjóðinni mun meira fé í sameiginlega sjóði, sem síðan nýtist til þess að bæta almenn skilyrði fyrir heimili og fyrirtæki af öllu tagi um allt land.
 • Ríki og sveitarfélög séu rekin af ábyrgð, skuldir borgaðar niður og að langtímahugsun ríki í efnahags-, atvinnu- og ríkisfjármálum.
 • Skammsýni víki almennt fyrir ábyrgri langtímastefnu.
 • Samfélagsleg markmið, s.s. í mannréttindamálum, umhverfismálum og hvað varðar siðferði í viðskiptum, setji svip sinn á áætlanagerð og fjárfestingar.
 • Ríkisrekstur sé ekki umfangsmikill en markviss og miði fyrst og fremst að því að tryggja góðan grunn og svigrúm að skapandi framtaki einstaklinga og samtaka þeirra.
 • Öðrum mælikvörðum en hagvaxtarmælikvörðum verði einnig beitt á efnahagslegar stærðir, þar sem litið verði til fleiri þátta mannlífsins, s.s. sjálfbærni þess og almennrar hagsældar.
 • Fjölbreytni ríki í atvinnulífinu og hún verði aukin með fjárfestingu eða annars konar hvatningu í skapandi greinum, grænum iðnaði, s.s. vistvænni tækniþróun og framleiðslu, hugverka- og þekkingariðnaði og aukinni rannsóknar- og þróunarstarfsemi.
 • Rekstri lítilla og meðalstórra fyrirtækja verði gert hærra undir höfði með einfaldara regluverki, skattaumgjörð og hvötum sem efla rekstur þeirra.
 • Fleiri forsendur skapist fyrir byggð í sveitum með fjölbreyttari starfsemi en hefðbundnum landbúnaði.
 • Að jarðvarmi verði í meiri mæli nýttur til ræktunar á grænmeti og ávöxtum.
 • Skatta- og tollakerfið verði einfalt, réttlátt og skiljanlegt og hvetji til innlendrar verslunar, nýsköpunar og vistvænnar atvinnustarfsemi og hindri sem minnst framtakssemi.
 • Góðir háskólar stundi öflugt rannsóknarstarf, bjóði upp á fjölbreytta menntun og svari líka kalli atvinnulífsins um þá þekkingu og kunnáttu sem þarf.
 • Námslán nægi námsmönnum fyrir námi hér á landi sem erlendis.

Velferð, heilsa og hamingja

Við viljum beita okkur fyrir því að:

 • Allir íbúar landsins hafi jafnan aðgang að heilbrigðiskerfinu í gegnum eitt sameiginlegt sjúkratryggingakerfi.
 • Almenn heilsugæsla bjóðist öllum, hvar á landi sem er, og sérhæfðari þjónusta á spítölum.
 • Heilbrigðiskerfið bjóði upp á fjölbreyttar leiðir með mismunandi aðferðafræði og aðkomu allra heilbrigðisstétta.
 • Forvarnir vegna ýmissa andlegra og líkamlegra sjúkdóma og kvilla séu öflugar og að í samfélaginu sé almennt lögð jafnmikil áhersla á andlega heilsu og líkamlega.
 • Brugðist sé við vanda einstaklinga með samræmdu og heildstæðu móti þar sem viðeigandi stofnanir, aðstandendur og viðbragðsaðilar vinna saman að lausn vandans.
 • Vitund almennings um heilsu, gott mataræði og hreyfingu sé aukin og efld.
 • Tannheilsa falli í auknum mæli undir sjúkratryggingakerfið.
 • Samfélagið virði eldri borgara, nýti krafta þeirra og þekkingu og ævikvöld þeirra verði sem best.
 • Eldri borgarar geti notið þjónustu í því byggðalagi sem þeir kjósa og þeim bjóðist fjölbreyttir og hagkvæmir búsetukostir.
 • Lífeyriskerfið verði einfaldað til muna, að samræmi sé milli opinbera og almenna kerfisins og að samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða sé skoðað með það að markmiði að fólk njóti betur framlaga sinna til hvors tveggja.
 • Fleiri leiðir bjóðist fólki til að koma sér upp þaki yfir höfuðið, í gegnum leigu eða aðra möguleika og sérstaklega sé hugað að því að auðvelda ungu fólki að hefja heimilisrekstur.
 • Samgöngur séu góðar um land allt, í borg og sveit, og samgönguframkvæmdir miði að því að lagfæra varhugaverðustu vegakafla landsins og tengja saman nágrannabyggðalög sem nú búa við hættulegar hindranir.

Umhverfið og náttúran

Við viljum beita okkur fyrir því að:

 • Nýting auðlinda til lands og sjávar verði ætíð í jafnvægi og ekki sé gengið á rétt komandi kynslóða til þess að njóta sömu gæða.
 • Íslendingar standi sig betur í endurvinnslu, vistvænum lífsháttum og notkun á alls kyns orkusparandi tækni.
 • Notkun vistvænna orkugjafa verði útbreiddari en nú er, bæði til sjós og lands.
 • Vistvænni samgöngumátar eins og almenningssamgöngur og hjólreiðar njóti mun meiri forgangs í uppbyggingu samgangna.
 • Ferðamennska verði skipulögð þannig að hún raski ekki viðkvæmri náttúru og þar með aðdráttarafli landsins og gæðum þess.
 • Átak sé gert í vernd og uppbyggingu þjóðgarða, friðlanda, þjóðlenda og þjóðskóga og skýr stefna mótuð um vernd og nýtingu hálendis Íslands.
 • Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða verði lögfest og njóti trausts og virðingar sem framsýn og fagleg sáttagjörð milli ólíkra sjónarmiða um virkjun og vernd.
 • Áhersla á lífræna ræktun og upprunavottuð matvæli verði aukin og matvælamerkingar bættar til muna.
 • Dýravernd sé í hávegum höfð.

Samfélagið og umheimurinn

Við viljum beita okkur fyrir því að:

 • Íslendingar landi eins góðum samningi og völ er á við Evrópusambandið og að þjóðin taki afstöðu til aðildar á grunni fullkláraðs samnings í þjóðaratkvæðagreiðslu, að undangenginni upplýstri og vandaðri umræðu.
 • Íslendingar verði virkir og mikilvægir þátttakendur í samvinnu sjálfstæðra ríkja í Evrópu innan ESB, kjósi þjóðin aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu.
 • Íslendingar setji sér nýja, frumsamda og skýrari stjórnarskrá, líkt og Stórnlagaráð hefur lagt til.
 • Auðlindir sem ekki eru í einkaeigu séu sameign þjóðarinnar.
 • Lista- og menningarstarf fái notið sín í allri mögulegri mynd.
 • Meira frjálsræði og sveigjanleiki ríki í íslensku stjórnkerfi, það sé móttækilegt fyrir skapandi hugsun og breytingar séu hluti af eðlilegu rekstrarumhverfi hins opinbera líkt og annars staðar í atvinnulífinu.
 • Meira frelsi ríki í viðskiptum neytendum til hagsbóta, þ.m.t. í innflutningi á matvælum.
 • Beint lýðræði fái meira vægi, ekki einungis með atkvæðagreiðslum heldur ekki síður aukinni þátttöku almennings á öðrum stigum ákvarðanatökunnar.
 • Tækninýjungar séu notaðar til þess að einfalda stjórnsýsluna, auka þátttöku fólks í umræðu og ákvörðunum og bæta aðgengi þess að upplýsingum.
 • Landsbyggðin og borgarsamfélagið vinni meira saman sem ein heild, enda þarfnast höfuðborgin landsbyggðar og öfugt.
 • Þróttmikið mannlíf fái þrifist um land allt.
 • Áhersla sé lögð á sáttaferli ýmiskonar og forn rígur milli flokka, bæjarfélaga, fjölskyldna, einstaklinga, félagasamtaka og annarra, sem oft stendur í vegi fyrir framförum og heilbrigðri skynsemi, verði meðhöndlaður markvisst.
 • Virðing Alþingis verði endurreist og þar ríki meiri sanngirni í orðaskiptum, kurteisi, gleði og jafnframt festa í vinnubrögðum líkt og tíðkast á mörgum öðrum sviðum samfélagsins, s.s. í fyrirtækja- og félagamenningu nútímans.
 • Almennt ríki minna vesen.
 • Ísland vinni Eurovision.

Leiðirnar að þessum markmiðum kunna að vera margar.

Við hvetjum þá sem deila þessari sýn að leggjast á árarnar með okkur, taka þátt og leggja fram sínar hugmyndir að lausnum og leiðum.

Saman sköpum við bjarta framtíð.

Samþykkt á fundi stjórnar BF 6.september 2012.

 

Ályktunina á auðlesnu máli má nálgast hér.

Fylgstu með!

Skráðu þig á póstlistann og fáðu vikulegt fréttabréf sent.