Svona er Björt framtíð

Fjölbreytt og spennandi Ísland

Björt framtíð er málsvari fjölbreytni, á öllum sviðum. Byggjum upp ferðaþjónustuna, skapandi greinar, rannsóknir og þróun, grænan iðnað og alls konar nýsköpun. Eflum skólastarf og menningarlífið og gerum Ísland að skemmtilegri stað til að vera á, uppfullum af tækifærum. Leyfum fólki að flytja til okkar og gerast nýir Íslendingar. Fáum unga fólkið heim. Treystum fólki til að skapa sín eigin tækifæri í traustu, opnu og alþjóðlegu samfélagi.

Engin manneskja er útundan

Stöndum mannréttindavaktina, alltaf, fyrir börn, fyrir fatlað fólk, fyrir innflytjendur, fyrir konur, fyrir karla, fyrir ríka, fyrir fátæka. Hjálpum þeim mest sem virkilega þurfa aðstoð, til þess að lifa sjálfstæðu lífi, til þess að öðlast þak yfir höfuðið, til þess að ala upp börnin sín. Endurreisum heilbrigðiskerfið, með stórbættri heilsugæslu um land allt, öldrunarþjónustu, lýðheilsu og forvörnum, nýjum Landspítala, betra gæðaeftirliti og miklu, miklu minni greiðsluþátttöku sjúklinga.

Ábyrg langtímahugsun

Verndum umhverfið, björgum jörðinni, verum græn. Hugsum fram í tímann. Frestum ekki vandamálum. Innviðir Íslands eru að drabbast niður, vegirnir, skólarnir, spítalarnir. Samt er góðæri. Í stað þess að fjárfesta í innviðum hefur verið bruðlað með fé. Í stað þess að afla tekna af auðlindum okkar til samfélagslegra verkefna, eru þær færðar fáum á spottprís. Þannig gerir Björt framtíð ekki. Við búum í haginn.

Yfirveguð stjórnmál

Tölum saman, segjum satt. Virðum hvort annað. Góð mál verða betri ef fleiri koma að þeim. Skoðanir, þekking og kunnátta fólks með alls konar bakgrunn og menntun eru fjársjóður. Upplýsingar eru gull. Björt framtíð þorir að leiða hin stærstu og erfiðustu deilumál til lykta með gögnum, rannsóknum, opnu samtali og lýðræðislegum aðferðum. Við höfum okkar sannfæringu og stöndum á henni. En við höfum líka kjark til að hlusta á aðra.

Framtíðarsýnin

Hér að neðan getur þú lesið framtíðarsýn okkar í hinum ýmsu málaflokkum

Björt framtíð leggur ríka áherslu á að elli- og örorkulífeyrir dugi til framfærslu. Það er með öllu óásættanlegt að það öryggisnet sem almannatryggingakerfið á að tryggja, skuli ekki grípa þá sem verst standa, hvort sem það eru ellilífeyrisþegar eða öryrkjar og úr því þarf að bæta strax. Björt framtíð vill einnig lögfesta notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) og auka framboð húsnæðis og tryggja að þjónusta við fatlað fólk verði heildræn og samþætt. Uppbygging heimaþjónustu er eitt af baráttumálum Bjartrar framtíðar og er einn lykilþátturinn í því að bæta lífsgæði aldraðra og draga úr þörf einstaklinganna fyrir dýrari og flóknari úrræði. Samhliða þarf að tryggja aðgengi að hjúkrunarrýmum sem dregur úr nauðsyn þess að aldraðir dvelji á bráðasjúkrahúsum með tilheyrandi óhagræði fyrir einstaklingana sjálfa og kerfið í heild.
Ísland er ríkt af auðlindum. Endurnýjanlega orkan, ósnortna náttúran og fiskurinn í sjónum eru okkur gjöful . Umfram allt þurfum við að passa upp á sjálfbærnina við nýtingu á þessum auðlindum. Fyrir umhverfið og fyrir komandi kynslóðir. Stefna Bjartrar framtíðar í auðlindamálum er því samtengd umhverfisstefnunni. Við eigum að auka virðisaukann sem við fáum með nýtingu auðlindanna. Ekki með því að nýta meira, heldur að nýta betur. Það er með ólíkindum að ekki hafi farið fram opinber stefnumótun til að innheimta í auknum mæli tekjur af auðlindanotkun. Gjald fyrir afnot af sjávarauðlindum er í mýflugumynd og hefur verið lækkað. Tekjur af orkusölu geta aukist verulega ef látið verður af þeirri stefnu sem ríkt hefur um árabil að stórkaupendum í stóriðju sé seld orkan á allt of lágu verði. Þá er náttúra Íslands viðkvæm auðlind sem ferðamenn vilja njóta. Það er fullkomlega eðlilegt að hið opinbera sæki sér umtalsverðar tekjur til þessarar auðlindanotkunar sem hægt væri að nýta til nauðsynlegrar uppbyggingar á innviðum ferðaþjónustu.
Björt framtíð telur umgjörð utan um barnafólk á Íslandi langt frá því að vera fullnægjandi og stuðning við þann hóp ekki nægjanlegan. Það að barnabætur séu eingöngu hugsaðar fyrir allra tekjulægstu fjölskyldurnar er óviðunandi framtíðarsýn sem gerir það að verkum að við stöndum Norðurlöndunum langt að baki í þessum efnum. Við höfum gagnrýnt hve tilviljanakenndir útreikningar liggja að baki fæðingarorlofi hjá þeim sem ekki hafa áunnið sér full réttindi. Öryggiskerfið grípur ekki alla hvað þetta varðar og Björt framtíð vill tryggja þeim sem ekki uppfylla skilyrðin, raunhæfa framfærslu.
Björt framtíð vill að ferðaþjónusta haldi áfram að vaxa og dafna hérlendis. Það þarf engu að síður að vera undir formerkjum sjálfbærni og náttúruverndar. Greinin þarfnast heildstæðrar og markvissar stefnu svo hægt sé stýra álaginu sem hún veldur á land og þjóð. Samfélagslegir innviðir Íslands eru ekki byggðir fyrir svo marga gesti og margir innviðanna eru við það að kikna undan álaginu. Þar má nefna löggæsluna, vegakerfið, heilbrigðiskerfið og eftirlit með þjóðgörðum, friðlýstum svæðum og öðrum náttúruperlum. Þá er ótalið aukaálagið á björgunarsveitir landsins sem, vel að merkja, eru reknar í sjálfboðavinnu. Björt framtíð vill að ferðaþjónustan sé skattlögð í efra skattþrepi rétt eins og flestar aðrar greinar atvinnulífsins og að ferðamenn greiði sérstaklega fyrir afnot af náttúrunni. Það þarf þó að tryggja að þær greiðslur skili sér beint til viðhalds og uppbyggingar innviða svo tryggt sé að ferðaþjónustan standi undir væntingum um sjálfbærni og náttúruvernd.
Við telj­um það skyldu okk­ar Íslend­inga að taka vel á móti fólki sem leit­ar griðlands og alþjóðlegr­ar vernd­ar utan síns heima­lands vegna stríðsátaka. Björt framtíð horf­ir til þess mannauðs sem í flótta­mönn­um býr og þess virðis sem þeir geta fært ís­lensku sam­fé­lagi en ekki ein­göngu til þess kostnaðar sem í því felst að taka á móti fólki í neyð. Mót­taka flótta­fólks þarf að byggja á skyn­semi, yf­ir­veg­un, mannúðarsjón­ar­miðum og skil­virkni til að tryggja að fólk fái þá aðstoð sem til þarf til að það hafi mögu­leika á að koma und­ir sig fót­un­um í nýju og ör­ugg­ara sam­fé­lagi. Flokk­ur­inn ályktaði á fundi sín­um í sept­em­ber 2015 að taka þyrfti á móti fleira flótta­fólki hingað til lands. Álykt­un­in hljóm­ar svo, í heild sinni: „Árs­fund­ur Bjartr­ar framtíðar skor­ar á stjórn­völd að end­ur­skoða taf­ar­laust fyr­ir­ætlaðar aðgerðir varðandi mót­töku flótta­fólks og auka fjölda þeirra sem hingað koma til mik­illa muna. Neyðarástand það sem blas­ir við vax­andi fjölda flótta­fólks, sem leit­ar til Evr­ópu að alþjóðlegri vernd, kall­ar á rót­tæk og snör viðbrögð. Börn, kon­ur og karl­ar standa frammi fyr­ir gríðarleg­um hörm­ung­um og sí­fellt ber­ast frétt­ir af dauðsföll­um sök­um ástands­ins. Ísland get­ur boðið mun fleira flótta­fólk vel­komið og okk­ur ber siðferðileg skylda til að leggja okk­ar af mörk­um. Koma flótta­fólks auðgar jafn­framt ís­lenskt sam­fé­lag. Við eig­um jafn­framt að bregðast við með því að bjóða mun meiri aðstoð á svæðum þar sem hörm­ung­arn­ar eiga sér stað, á hvern þann hátt sem við best get­um. Sýn­um í verki að við vilj­um standa vörð um mann­rétt­indi og rétt­indi fólks til ör­uggs lífs!“ Þing­menn Bjartr­ar framtíðar og flokks­menn hafa ít­rekað bent á að Dyflin­ar-reglu­gerðin er reglu­gerð sem Íslend­ing­ar eru ekki bundn­ir af, held­ur sé um að ræða val­frjálsa notk­un á henni. Það að beita henni án þess að gefa kost á efn­is­legri meðferð máls sé ómannúðlegt. Vegna þess styður Björt framtíð að hvert og eitt mál verði tekið til efn­is­legr­ar meðferðar til að tryggja mannúðlega meðferð, skil­virkni og tryggja að Íslend­ing­ar upp­fylli siðferðileg­ar skuld­bind­ing­ar sín­ar við alþjóðasam­fé­lagið. Björt framtíð mun beita sér fyr­ir end­ur­skoðun á eft­ir­fylgni reglu­gerðar­inn­ar hér­lend­is í þeim til­gangi að tryggja of­an­greint.
Björt framtíð vill styrkja rekstur framhaldsskóla landsins sem hafa búið við mjög þröngan kost undanfarin ár og eru raunar komnir að þolmörkum eftir viðvarandi niðurskurð. Staða skólanna margra hverra er orðin grafalvarleg og grípa þarf til aðgerða strax enda hlutfall útgjalda ríkisins til framhaldsskólastigsins undri meðaltali OECD ríkjanna. Við teljum nauðsynlegt að auka fjölbreytni og sveigjanleika í framhaldsskólakerfinu. Við viljum búa til kerfi sem lagar sig að nemendum frekar en að nemendur þurfi að að laga sig að kerfinu. Hlutfall nemenda sem skráir sig í verknám er talsvert lægra hér á Íslandi en í nágrannalöndum okkar. Nauðsynlegt er að fjögla nemendum sem taka þann valkost, til þess þurfa stjórnvöld að ráðast í metnaðarfulla stefnumótun á uppbyggingu iðnnáms, endurnýjun á tækjakosti í iðnmenntaskólum og kynningu á náminu.
Björt framtíð vill öflugt háskólakerfi, fjölbreytt námsframboð og áherslu á rannsóknir og nýsköpun. Fjárframlög á hvern háskólanema á Íslandi eru lægri en að meðaltali í OECD-ríkjunum og mun lægri en annars staðar á Norðurlöndunum. Íslenskir háskólar hafa verið verulega vanfjármagnaðir og munu ekki standast samkeppni um starfsfólk, nemendur og getu til að afla styrkja með þessu áframhaldi. Þessu þarf að breyta því framtíð Íslands veltur ekki síst á vel menntuðu starfsfólki. Björt framtíð vil einnig sjá í fjármálaáætlun ríkisins framtíðarsýn varðandi húsnæðismál Listaháskólans en afar brýnt er að skólinn fái sem fyrst viðeigandi húsnæði. Nú liggur fyrir að skortur verður á starfsstéttum eins og kennurum og hjúkrunarfræðingum auk þess sem hlutfall raungreinamenntaðra þyrfti að vera hærra.
Eitt grundvallarviðfangsefni heilbrigðiskerfisins er að tryggja nægan fjölda af hæfu starfsfólki. Menntun og þjálfun skiptir hér máli. Laun þurfa að vera samkeppnishæf og starfsumhverfið gott. Því miður vantar talsvert upp á það. Björt framtíð vill breyta því, m.a. með því að tryggja að á hverjum tíma sé til vönduð mannaflaspá fyrir heilbrigðisstarfsstéttir. Björt framtíð vill efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað í heilbrigðiskerfinu og stórauka þjónustuna þar, m.a. með auknu aðgengi að sérfræðingum og aukinni þjónustu. Við teljum að unnt sé að bæta þjónustu og hagræða með því að nýta betur þá þekkingu og reynslu sem hinar fjölmörgu starfsstéttir búa yfir. Björt framtíð telur borðliggjandi að t.d. næringarfræðingar og sjúkraþjálfarar ættu koma að meðferð sjúklinga sem gætu fengið bót meina sinna með því að breyta mataræði sínu og auka hreyfingu. Ráðgjöf við heilsusamlegan lífsstíl gæti einnig sparað fjármagn í heilbrigðiskerfinu. Geðrænir sjúkdómar eru ein helsta ástæða fyrir nýgengi örorku og kostar þjóðfélagið mikið fé í formi lyfja, læknisþjónustu og tapaðra vinnustunda. Aukið aðgengi að sálfræðingum á heilsugæslum og í framhaldsskólum landins er stefna Bjartrar framtíðar. Heilbrigðisþjónusta í fámennu og dreifbýlu landi er áskorun og þróunin hefur reynst sú að aðgengi að sérfræðingum er að miklu leyti bundin við höfuðborgarsvæðið. Björt framtíð leggur áherslu á fjarheilbrigðisþjónustu til að spara tíma og fjármuni og til að bæta þjónustu, þar sem því verður við komið.
Björt framtíð veit að fátt yrði betra fyrir heimilisbókhaldið en að koma á húsnæðislánamarkaði með lágum raunvöxtum til langs tíma. Það er spurning um pólitískan fókus en stöðunni verður ekki breytt á einni nóttu. Til þess að taka fyrstu skrefin í því þarf að ræða grundvöll alls efnahagslífsins í stað þess að vera sífellt að hanna ný viðbrögð við því að grundvöllurinn sé slæmur. Eins og verðtrygging er dæmi um. Björt framtíð veit að þar skiptir stöðugri gjaldmiðill meginmáli. Og auknar útflutningstekjur. Og aðhald í ríkisfjármálum. Björt framtíð hefur einnig lagt fram mál á þingi sem snýst um að námsmenn sem leigja herbergi í íbúðum eigi rétt á húsaleigubótum. Margir námsmenn leigja íbúðir sem þeir deila með öðrum og verður þeim gert kleift að sækja um húsaleigubætur eins og þeir nemendur sem leigja herbergi á heimavist. Þetta er ein af þeim leiðum sem við viljum sjá til að einfalda ungu fólki í námi að geta flutt að heiman. Stóra málið er svo að hér komist á húsnæðislánamarkaður með lágum raunvöxtum til langs tíma.
Björt framtíð styður íslenskan landbúnað, framþróun hans og stuðning við hann. Við teljum að hægt sé að gera betur, bændum til heilla, tryggja afurðaverð til þeirra betur en nú er og auka samkeppnishæfni íslenskra landbúnaðaraðfurða. Búvörusamningar milli stjórnvalda og bænda eru verkfæri til að stuðla að sjálfbærri og góðri nýtingu lands og tækifæri til að hafa jákvæð áhrif á þróun landbúnaðar til lengri tíma. Landbúnaðarstefnan þarf jafnframt að taka tillit til neytenda. Jarðgæði og möguleikar til landbúnaðar eru ein auðlinda landsins og mikilvægt að gengið sé um hana og hún nýtt af ábyrgð. Þess vegna viljum við auka áherslur á styrki vegna landnotkunar, landbóta, umhverfismála og nýsköpun.
Gott og faglegt skólastarf er fjárfesting í framtíðinni. Eitt þeirra verkefna sem Björt framtíð vill beita sér fyrir er að hlúa að kennurum sem bera hitann og þungann af skólastarfi. Í grunnályktun flokksins er það álitin kjarnastarfsemi í þjóðfélaginu að koma börnum til manns. Í því felst m.a. að þjónusta við börn, unglinga og fjölskyldur þeirra sé ætíð sem best. Þegar til lengri tíma er litið vill Björt framtíð vill beita sér fyrir því að ríkið, sveitarfélögin, háskólarnir, stéttarfélögin og starfandi kennarar myndi stefnumótunar- og viðbragðsteymi sem mótar heildarstefnu í málefnum leik- og grunnskóla í þeim tilgangi að til langrar framtíðar verði örugglega boðið upp á nám, vinnuaðstöðu og umgjörð utan um skólastarf sem stenst kröfur nútímans um góðan grunn fyrir frekara nám og lífið. Björt framtíð telur að ríkisvaldinu beri að búa þannig um hnútana að sveitarfélögin geti staðið sómasamlega að verki við það mikilvæga verkefni að reka leik- og grunnskóla og gera þá að aðlaðandi viðverustöðum fyrir börn og starfsfólk. Huga þarf að uppbyggingu innviða skólanna eins og mannafla og vel menntuðu starfsfólki. Við teljum nauðsynlegt að ríkisvaldið semji við sveitarfélögin um rekstur og fjármögnun leikskóla og leggi þeim til nýja eða aukna tekjustofna. Björt framtíð vill beita sér fyrir því að endurskoða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga meðal annars til að reka leikskóla. Sveitarfélögunum ber ekki samkvæmt neinni löggjöf í dag að fjármagna rekstur leikskóla, þó gera sveitarfélög það án sérstaks fjármagns frá ríkisvaldinu til þess.
Sá fjölbreytti hópur sem býður sig fram fyrir Bjarta framtíð er undantekningarlaust áhugafólk um menningarmál og margt af því er virkt á því sviði á einn eða annan hátt. Þar er stórpönkarinn og lestarhesturinn Óttarr Proppé fremstur meðal jafningja. Áhugi á menningu er því ekki bara til staðar á tyllidögum hjá frambjóðendum Bjartrar framtíðar heldur sjálfsagður hluti af hversdagslífinu. Menningarstefna Bjartrar framtíðar felst meðal annars í því að efla listkennslu á öllum skólastigum, standa vörð um höfundarréttinn, lækka skatta á menningarstarfsemi, þar á meðal á bækur, stórauka fjárveitingar til skapandi greina á öllum sviðum um allt land og efla menningarsamstarf okkar við aðrar þjóðir, enda er menningin besta leiðin til að byggja upp traust og vináttu milli þjóða. Einu gildir hvor mælistikan er notuð, efnahagsleg eða menningarleg, við græðum öll á því að virkja og örva enn betur sköpunargleðina og -kraftinn sem býr í þjóðinni og búa þannig til  fjölbreyttara, skemmtilegra, manneskjulegra og auðugra samfélag. Björt framtíð leggur mikla áherslu á að húsnæðismál Listaháskóla Íslands verði leyst til frambúðar.
Björt framtíð vill að samgönguáætlun verði alltaf höfð til grundvallar uppbyggingu og viðhaldi á samgöngukerfinu svo hægt sé að forgangsraða verkefnum og leggja raunhæft mat á árlegan kostnað við viðhald og nýlagningu vega og flugvalla eða annarra samgöngubóta . Álag á vegakerfið hefur til að mynda aukist gríðarlega undanfarin ár en viðhald á því hefur verið algerlega úr takti. Við viljum efla almenningssamgöngur og gera þær að raunverulegum valkosti. Framlög til samgöngumála sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hafa þar að auki lækkað frá árinu 2013. Við kunnum ekki að meta svona vinnubrögð. Framtíðarsýnin þarf að vera skýr svo hægt sé að gera langtímaáætlanir sem taka til kostnaðar og framkvæmdahraða.
Við í Bjartri framtíð teljum að það eigi áfram að nota kvótakerfi við að stjórna fiskveiðum því trúum að það sé hagkvæmasta aðferðin til að halda heildarafla innan skynsamlegra marka sem og kostnaði við að sækja aflann niðri. Eins teljum við það stuðla að bestri aflameðferð og gæðum og þar með verðmætasköpun og arði af fiskveiðum og fiskvinnslu. Hins vegar þarf að tryggja öruggari og meiri hlutdeild fólksins í landinu í arðinum en nú er og alveg sérstaklega fólks sem starfar í sjávarútvegi, s.s. við veiðar og vinnslu og samfélaga sem hafa verið og eru mjög háð sjávarútvegi um afkomu sína. Það þarf að gera með gagngerri endurskoðun núverandi veiðigjaldakerfis eða uppboði á aflaheimildum með skilyrðum sem tryggja m.a. nægilegan varanleika og rekstraröryggi hjá þeim sem gera út og stunda fiskvinnslu og koma í veg fyrir of mikla samþjöppun og tryggja raunverulega og virka samkeppni um aflaheimildir Við teljum að rétt sé til að byrja með að nota báðar aðferðir, þ.e. veiðigjöld og uppboð, þ.e. úthluta hluta fiskveiðikvóta með þeim aðferðum sem nú er gert en með endurskoðuðum veiðigjöldum og úthluta hluta kvótans á grundvelli uppboða. Eins og t.d. þegar aflamark er aukið verulega frá fyrri fiskveiðiárum og í nýjum tegundum. Þannig megi líka meta kosti og galla þessara aðferða og sníða af þeim annmarka áður en varanlegu kerfi verður komið á. Hvað sem okkur kann að finnast um kvótakerfið þá má aldrei líta framhjá þeirri staðreynd að við Íslendingar rekum hugsanlega einn sjálfbærasta, hagkvæmasta og arðbærasta sjávarútveg í heimi í dag.
Björt framtíð leggur þunga áherslu á að breytingar verði gerðar á stjórnarskrá Íslands í samræmi við vilja þjóðarinnar, eins og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar haustið 2012.
Björt framtíð telur brýnt að farið verði ofan í saumana á tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ýmis verkefni sem sveitarfélögin hafa tekið yfir hafa haft í för með sér meiri kostnað en fyrirhugað var. Skuldastaða margra sveitarfélaga er verulegt áhyggjuefni. Björt framtíð telur svigrúm til að endursemja um tekjuskiptingu þar sem gert sé ráð fyrir því að hagur ríkisins muni vænkast verulega á næstu árum en staða sveitarfélaganna standa óbreytt. Einnig er mikilvægt að halda aftur af fjárfestingaráformum hins opinbera og/eða forgangsraða þeim til að koma í veg fyrir spennu í hagkerfinu.
Björt framtíð vill að stefna Íslands í umhverfis- og náttúruverndarmálum sé metnaðarfull og skýrt grunnstef í allri annarri stefnumótun stjórnvalda. Við viljum draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til samræmis við alþjóðlegar skuldbindingar og byggja upp grænt lágkolefnishagkerfi hérlendis sem byggir á sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda, fullnýtingu afurða, endurnýjanlegum orkugjöfum og öflugri nýsköpun á sviði líftækni og hugvits. Við viljum nýta fjölbreytta hvata til að ýta undir að umhverfisvænasta lausnin verði jafnframt alltaf sú hagkvæmasta. Við viljum efla neytendavitund og teljum að ríkið eigi að ganga á undan með góðu fordæmi. Ráðuneyti og allar ríkisstofnanir eiga að vera umhverfisvottaðar.
Björt framtíð leggur áherslu á að landa góðum samningi við ESB sem þjóðin getur eftir upplýsta umræðu, samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá opnast leið til gjaldmiðilssamstarfs við Evrópska seðlabankann (ERM II), sem strax getur aukið stöðugleika. Svo getum við tekið upp evru þegar skilyrði skapast til þess. Það er auðvitað ekki töfralausn en þó að öllum líkindum sigurstranglegasta leiðin í átt að efnahagslegum stöðugleika. Björt framtíð vill að Íslendingar leggi sitt af mörkum til friðar í heiminum með þátttöku í þróunarsamvinnu, hjálparstarfi og friðarumleitunum, en taki ekki þátt í hernaði. Við viljum líka taka vel á móti flóttamönnum og sinna málefnum innflytjenda af stakri prýði. Þannig aukum við líkurnar á því að þeir aðlagist samfélaginu og verði hluti af því. Björt framtíð vill að Ísland vinni Eurovision

Fylgstu með!

Skráðu þig á póstlistann og fáðu vikulegt fréttabréf sent.