Lögin

Lög Bjartrar framtíðar voru samþykkt á stofnfundi 4.febrúar 2012.

Þar má greina marga nýbreytni í stjórnmálastarfi. Sjá kaflana hér til hliðar.

Lesið, njótið og ræðið.

1. Markmið og skipurit

1.1. Björt framtíð – BF er vettvangur fyrir hugmyndavinnu í þágu bjartrar framtíðar og góðs þjóðfélags. Björt framtíð starfar samkvæmt almennri yfirlýsingu flokksins um stjórnmál og hugmyndum sem verða til á vettvangi hans. Björt framtíð býður fram fulltrúa í kosningum til Alþingis og, eftir nánari ákvæðum, til sveitastjórna. Hún er frjálslynt, grænt, alþjóðlega sinnað stjórnmálaafl.

1 .2. Í Bjartri framtíð starfa félagar, stjórn, framkvæmdastjórn og tveir formenn; formaður og stjórnarformaður. Skipurit flokksins er sem hér segir:

skipurit

Einnig starfrækir flokkurinn Nefndina, sem gerir tillögu um uppstillingu á lista fyrir alþingiskosningar, og Ráðið sem sinnir sáttamiðlun og mannauðsmálum flokksins.

2. Félagar í Bjartri framtíð

2.1. Hver einstaklingur sem náð hefur 16 ára aldri og býr yfir íslenskri kennitölu getur gerst þáttakandi í Bjartri framtíð.

2.2. Skráning getur farið fram ýmist í gegnum heimasíðu Bjartrar framtíðar eða með skriflegu bréfi til framkvæmdastjórnar.

2.3. Listi yfir skráða þáttekendur í Bjartri framtíð hverju sinni er einungis aðgengilegur framkvæmdastjórn flokksins og framkvæmdastjóra. Hann má hvorki prenta út né dreifa.

3. Ársfundur

3.1. Ársfundur Bjartrar framtíðar skal haldinn minnst einu sinni á ári, að jafnaði fyrri hluta árs. Allir þátttakendur í Bjartri framtíð á þeim tíma er fundarboð er sent út hafa rétt til þess að sitja ársfund og greiða á honum atkvæði. Ársfundur er opinn öðrum þátttakendum án atkvæðisréttar.

3.2. Á ársfundi skal lögð fram skýrsla stjórnar ásamt reikningum. Ársfundur setur Bjartri framtíð lög og hina almennu stjórnmálayfirlýsingu. Ársfundur getur jafnframt ályktað um þjóðfélagsmál.

3.3 Formaður og stjórnarformaður eru kosnir á ársfundi ásamt meðlimum í stjórn. Einnig skal kjósa tvo skoðunarmenn reikninga úr hópi félagsmanna…

3.4 Allir þátttakendur í Bjartri framtíð eru kjörgengir til formannsembætta og stjórnar burtséð frá því hvort þeir hafi atkvæðisrétt á ársfundi eða ekki. Framboð til formanns, stjórnarformanns og til stjórnar skulu liggja fyrir fyrir setningu ársfundar.

3.5. Kosningar til embætta eru leynilegar og fara fram rafrænt.

3.6. Stjórn boðar ársfund og skal fundarboð sent út með þriggja vikna fyrirvara. Fjórðungur þátttakenda í Bjartri framtíð getur jafnframt farið fram á ársfund. Skal þá stjórn senda út fundarboð svo fljótt sem auðið er.

3.7. Í tilefni ársfunda skal halda fögnuð. Ráðið skipuleggur hann.

 

4. Formaður og stjórnarformaður

4.1. Í Bjartri framtíð skulu starfa tveir formenn; formaður og stjórnarformaður.

4.2. Formaður er talsmaður Bjartrar framtíðar. Hann leiðir stjórnarmyndunarviðræður á hans vegum sem og aðrar samningaviðræður við aðra flokka. Hann mælir fyrir tillögu um ríkisstjórnarsamstarf til stjórnar.

4.3. Stjórnarformaður stýrir stjórn Bjartrar framtíðar. Hann hefur umsjón með málefnastarfi flokksins og er tengiliður stjórnar við framboð Bjartrar framtíðar til sveitastjórna. Hann stýrir framkvæmdastjórn.

4.4. Formenn skulu hafa ríkt samráð sín á milli og vera sammála í stórum ákvörðunum. Hvor leysir hinn af, komi til forfalla.

5. Stjórn

5.1. Í stjórn Bjartrar framtíðar sitja 80 einstaklingar kjörnir til tveggja ára og eru 40 einstaklingar kjörnir af reglulegum ársfundi í senn. Auk þess eiga formenn Bjartrar framtíðar og þingmenn flokksins sæti í stjórn. Stjórn skal koma saman að jafnaði þrisvar á ári og oftar ef tilefni er til. Stjórnarfundir skulu opnir öðrum félögum í Bjartri framtíð, nema framkvæmdastjórn ákveði annað.

5.2. Stjórn skal taka afstöðu til þátttöku í ríkisstjórn, til kosningabandalaga og til þátttöku flokksins í alþjóðlegum samtökum. Hún skal einnig samþykkja skipan á framboðslista fyrir alþingiskosningar og samþykkja framboð í nafni flokksins til sveitastjórna. Stjórn getur jafnframt lýst yfir stuðningi við önnur framboð til sveitarstjórna þar sem Björt framtíð býður ekki fram. Stjórn getur tekið afstöðu til þjóðfélagsmála og sett fram tillögur og ályktanir.

5.3. Stjórn ákveður, á grunni málefnastarfs sem og ályktunum ársfundar, hvaða mál skulu sett á oddinn í málflutningi Bjartrar framtíðar fyrir alþingiskosningar.

5.4. Á fyrsta fundi nýrrar stjórnar eftir ársfund skal stjórn kjósa fimm einstaklinga – gjaldkera og fjóra meðstjórnendur – úr sínum röðum til setu í framkvæmdastjórn Bjartrar framtíðar. Jafnframt kýs þá stjórn þrjá einstaklinga í Ráðið. Minnst ári fyrir áætlaðar alþingiskosningar kýs stjórn fjóra einstaklinga í Nefndina.

5.6. Í atkvæðagreiðslum innan stjórnar geta stjórnarmeðlimir nýtt atkvæðisrétt sinn rafrænt séu þeir fjarverandi.

5.7. Telji stjórn að jafnræði milli þjóðfélagshópa innan stjórnar sé ekki nægjanlegt, einkum hvað varðar kyn, aldur og búsetu stjórnarmeðlima, getur stjórn ákveðið með einföldum meirihluta að fjölga stjórnarmeðlimum, utan þingmanna og formanna, í allt að 100, þar til betra jafnvægi telst náð. Skal þá framvæmdastjórn leggja fram tillögu að nýjum stjórnarmeðlimum fyrir stjórn, til samþykktar eða synjunar. Fjölgun í stjórn er ætíð tímabundin og varir aðeins til næsta ársfundar.

6. Framkvæmdastjórn

6.1. Í framkvæmdastjórn Bjartrar framtíðar eiga sæti báðir formenn, þingflokksformaður og fimm einstaklingar kosnir af stjórn – gjaldkeri og fjórir meðstjórnendur sem skipta með sér hlutverkunum ritari, málefnastjóri, viðburðastjóri og alþjóðafulltrúi á fyrsta fundi framkvæmdastjórnar.

6.2. Framkvæmdastjórn ber ábyrgð á rekstri flokksins, bregst við úrlausnarefnum og annast kynningarmál. Hún ræður framkvæmdastjóra og er heimilt að ráða aðra starfsmenn eftir þörfum, þar með talið kosningastjóra, séu kosningar í aðsigi. Hún starfar jafnframt að þeim málefnum sem stjórn felur henni hverju sinni.

6.3. Framkvæmdastjórn annast fjáröflun og getur skipað til þess fjáröflunarráð sem starfar á hennar vegum og samkvæmt reglum sem framkvæmdastjórn setur og leggur fyrir stjórn til samþykktar.

6.4. Framkvæmdastjórn boðar stjórnarfund í Bjartri framtíð að tillögu stjórnarformanns. Boð skal að jafnaði sent með fimm daga fyrirvara ásamt dagskrá sem framkvæmdastjórn ákveður. Ef sérstakar aðstæður ríkja má kalla stjórn saman með minni fyrirvara. Stjórnarformaður boðar fyrsta stjórnarfund eftir ársfund.

7. Þingflokkur

7.1. Þeir einstaklingar sem ná kjöri á þing af listum sem Björt framtíð leggur fram í alþingiskosningum teljast þingmenn Bjartrar framtíðar, nema þeir ákveði annað. Þingmenn skulu mynda þingflokk og kjósa sér þingflokksformann, varaþingflokksformann og ritara. Veita má öðrum þingmönnum inngöngu í þingflokk Bjartrar framtíðar óski þeir þess og ef meirihluti þingflokks samþykkir.

7.2. Formenn Bjartrar framtíðar, séu þeir ekki í þingflokknum, framkvæmdastjóri, starfsmaður þingflokks og fulltrúar í framkvæmdastjórn Bjartrar framtíðar hafa rétt til þess að sitja þingflokksfundi. Starfsmaður þingflokks skal jafnan vera ritari þingflokksfunda.

7.3. Þingflokkur getur ákveðið, samhljóða, að hafa þingflokksfund opinn.

7.4. Þingflokkur starfar að öðru leyti í samræmi við þingsköp og þær starfsreglur sem hann setur sér sjálfur. Starfsreglurnar skulu birtar á heimasíðu flokksins.

8. Nefndin

8.1. Minnst ári fyrir alþingiskosningar skal skipa Nefndina. Hún hefur það hlutverk að gera tillögur til stjórnar um skipan framboðslista í öllum kjördæmum.

8.2. Stjórn kýs fjóra einstaklinga í Nefndina úr röðum þátttakenda í Bjartri framtíð. Allir skulu þeir lýsa því yfir að við lögðum drengskap sínum að þeir hyggist ekki sjálfir sækjast eftir sæti ofarlega á listum til alþingiskosninga á meðan þeir sitja í Nefndinni. Jafnframt sitja formenn Bjartrar framtíðar í Nefndinni.

8.3. Nefndin skal leggja fram tillögu til stjórnar um framboðslista í hverju kjördæmi a.m.k. þremur mánuðum fyrir kosningar.

8.4. Nefndarmenn mæla fyrir tillögu í einu kjördæmi í senn, til samþykktar eða synjunar, um lista í heild sinni. Skal listinn kynntur stjórn sem hefur sjö daga til að kjósa rafrænt um listana. Sé listi ekki samþykktur, skal Nefndin leggja fram breyttan lista og aftur í þriðja skipti, sé sá listi ekki heldur samþykktur. Samþykki stjórn ekki lista frá Nefndinni eftir þrjár atkvæðagreiðslur skal stjórn kjósa í sex efstu sætin milli frambjóðenda sem gefa kost á sér í hvert sæti. Skal fyrst kosið í fyrsta sætið, og auglýst eftir framboðum í það, svo annað sæti og svo framvegis. Um fyrstu sex sætin gildir, að fái engin frambjóðandi yfir 50% atkvæða í sæti, skal kjósa aftur milli þeirra tveggja sem hlutu flest atkvæði.

8.5 Nefndinni er heimilt að leggja fyrst fyrir stjórnarfund tillögu að allt að sex efstu frambjóðendum í kjördæmi, minnst þremur mánuðum fyrir kosningar, og tillögu um aðra frambjóðendur í því kjördæmi á öðrum stjórnarfundi síðar, þó aldrei síðar en sex vikum fyrir kosningar. Skulu listar kynntir og um þá kosið eins og mælt er fyrir í 8.4.

8.6. Komi til skyndilegra alþingiskosninga skal kjósa til Nefndarinnar eins fljótt og auðið er á stjórnarfundi og leitast við að skipa framboðslista innan tilsettra tímamarka sé þess kostur.

8.7. Nefndin lýkur störfum um leið og listar hafa verið lagðir fram af hálfu Bjartrar framtíðar í öllum kjördæmum og samþykktir af landskjörstjórn. Hún er ekki skipuð aftur fyrr en í tilefni næstu alþingiskosninga.

9. Ráðið

9.1. Í Bjartri framtíð skal starfrækja Ráðið. Í því sitja þrír þátttakendur í Bjartri framtíð sem ekki sitja á þingi, kjörnir til tveggja ára í senn. Þeir skulu kjörnir af stjórn.

9.2. Ráðið hefur það að hlutverki sínu að leita sátta, komi til ágreinings innan raða félaga, meðal þingmanna hans eða í forystu hans. Ráðsmenn skulu virða trúnað, sé þess óskað.

9.3. Allir þátttakendur í Bjartri framtíð geta sent ábendingar, í fullum trúnaði, til Ráðsins. Ráðið skal meta hvernig fara skal með slíkar ábendingar hverju sinni, en jafnan leita leiða til þess að bæta og efla starfsemina á grunni þeirra.

9.4. Ráðið sinnir mannauðsmálum innan Bjartrar framtíðar með viðburðum eins og fræðslufundum, fögnuðum og öðru sem ráðsmenn kunna að telja árangursríkt í því markmiði að viðhalda skemmtilegu og uppbyggilegu andrúmslofti í starfi Bjartrar framtíðar.

10. Sendiherrar

10.1. Stjórn velur sendiherra Bjartrar framtíðar, sem skulu efna til og annast samskipti við aðra svipaða flokka í heiminum í samráði við framkvæmdastjórn. Heimilt er að hafa þá allt að þrjá og skulu þeir hafa með sér samráð.

11. Framboð til sveitastjórnar

11.1 Frumkvæði að framboði til sveitarstjórnar kemur frá þátttakendum í Bjartri framtíð í viðkomandi sveitarfélagi.

11.2 Stjórn Bjartar framtíðar fjallar um og staðfestir framboð í nafni Bjartrar framtíðar í hverju sveitarfélagi fyrir sig.

11.3  Stjórn setur verklagsreglur um framboð og undirbúning framboðs til sveitarstjórna og skal þar leitast við að tryggja:

  1. a) að allir þátttakendur í Bjartri framtíð með búsetu í viðkomandi sveitarfélagi hafi jafna möguleika að aðkomu við undirbúning framboðs og ákvörðun um að lista.
  2. b) fjárhagslegan aðskilnað framboðs frá fjárhag Bjartrar framtíðar.

12. Ýmis ákvæði

12.1. Varnarþing Bjartrar framtíðar er í Reykjavík.

12.2. Rekstur flokksins skal vera eins umhverfisvænn og frekast er kostur.

12.3. Skoðunarmenn reikninga skulu yfirfara ársreikning Bjartrar framtíðar og reikningsgögn. Þeir skulu staðfesta yfirferð sína með því að árita ársreikning.

12.3. Formaður og stjórnarformaður skulu kjörnir með yfir 50% atkvæða. Kosið skal milli tveggja efstu hljóti enginn yfir 50% í fyrstu umferð.

12.4. Framboð til framkvæmdastjórnar skulu berast stjórnarformanni fyrir upphaf stjórnarfundar. Framboð í Nefndina og Ráðið skulu einnig berast stjórnarformanni fyrir upphaf stjórnarfundar.

12.5. Komi til ágreinings um það hvort rétt sé farið eftir lögum þessum skal fyrst reynt að jafna ágreininginn innan Ráðsins. Teljist það fullreynt skal stjórn skipa laganefnd sem gerir tillögu um úrskurð til stjórnar, til samþykktar eða synjunar.

12.6. Lagabreytingartillögur skulu sendar þátttakendum í Bjartri framtíð minnst viku fyrir ársfund.

 

 

Fylgstu með!

Skráðu þig á póstlistann og fáðu vikulegt fréttabréf sent.