Stjórnmálayfirlýsing

Nokkur mikilvæg orð
eða almenn yfirlýsing um stjórnmál
samþykkt á stofnfundi Bjartrar framtíðar 4.febrúar 2012.

Stjórnmál eru lykilatriði í mannlegu lífi. Þau eru vettvangur samstarfs um skipulag og þróun samfélagsins. Stjórnmál eiga að vera opin og aðgengileg öllum. Þau eiga að bæta líf einstaklinga.

Stjórnmálaaflið sem við viljum skapa á ekki að vera valdatæki þröngra hagsmuna. Við viljum skapa eðlilegan og afslappaðan vettvang þar sem ólíkir einstaklingar, sem deila lífssýn, geta komið saman og tjáð hug sinn til samfélagsmála og boðið fram hugmyndir sínar, drifkraft og þjónustu í þágu alls almennings. Það er einmitt ein meginhugmynd okkar um stjórnmálaþátttöku: Þjónusta.

Við erum víðsýn og frjálslynd. Við erum málsvarar umhverfis og náttúru. Við fögnum nútímanum og göngum óhrædd fram veginn til samvinnu við annað fólk og aðrar þjóðir. Við erum bjartsýn og kunnum að meta það sem vel er gert. Við viljum vinna að friði milli manna og milli þjóða og boðum virðingu fyrir mannréttindum. Fólk er alls konar. Fjölbreytni er verðmæti í sjálfu sér.

Nokkur orð eru okkur mikilvægari en önnur. Þau gilda í samskiptum einstaklinga, einstaklinga og samfélags, samfélags og stjórnvalda, þjóðar og umheims. Þau eru:

Hugrekki

Það krefst hugrekkis að hlusta á hjarta sitt, fylgja sannfæringu sinni, boða sýn, treysta fólki, hlusta á rök og upplýsingar, standa í fæturna og axla ábyrgð.

Svigrúm

Allir eiga að búa við aðstöðu og svigrúm til að gera það sem hugur þeirra stendur til, án þess að skaða aðra. Fjölbreyttar athafnir einstaklinga, hugmyndir þeirra og kraftur — fái þeir svigrúm — eru grunnur að farsælu þjóðfélagi.

Jafnvægi

Við viljum vera í jafnvægi í störfum okkar. Efnahagslíf okkar á að vera í jafnvægi. Umgengni okkar við náttúruna á að vera í jafnvægi. Við keppum að jafnvægi. Auðlindir okkar eiga að skila arði til þjóðarinnar, án þess að jafnvægi sé raskað.

Hlýja

Stjórnmál eiga að vera vettvangur hins mannlega. Enginn á að þurfa að líða skort vegna ákvarðana í stjórnmálum eða þola óréttlæti. Engum á að stafa ógn af stjórnmálum eða stjórnmálaþátttöku.

Skilningur

Skilningur er leið til góðra ákvarðana og sátta. Gífuryrði og hleypidómar sem og alls kyns misskilningur hindrar framfarir og lausnir. Við hlustum meira en við tölum.

Hreyfing

Hreyfing er líf. Við hvetjum til þróunar og aðlögunar að breytingum. Við forðumst staðnaða notkun tungumálsins. Við hvetjum til skapandi og óhefðbundinnar hugsunar.

Traust

Við treystum fólki. Við aðhyllumst róttækt traust. Þess vegna erum við lýðræðisafl.

Ábyrgð

Allt það sem ofan greinir byrjar hjá okkur sjálfum, með ábyrgð á okkur sjálfum og því hvernig við hugsum, tölum og hlustum. Við vegum og metum kosti og galla allra mála af ábyrgð. Við óttumst ekki erfiðar ákvarðanir í þágu almannahags og bjartrar framtíðar.

Stjórnmál eru skemmtileg og mikilvæg. Saman getum við allt.

Fylgstu með!

Skráðu þig á póstlistann og fáðu vikulegt fréttabréf sent.